131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:36]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka fyrri sjónarmið mín og legg áherslu á að við erum að tala um grafalvarlega hluti. Við erum að tala um innrás sem gerð er á ríki á grundvelli upploginna saka. Um allan heim fara fram í þjóðþingum ríkja umræður um nákvæmlega þetta. Ég vek athygli á því að ríkisstjórn Íslands og hæstv. utanríkisráðherra neita að horfast í augu við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og þær lygar sem ríkisstjórnin áður byggði afstöðu sína á. Hún neitar að ræða þetta.