137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Sá stóri áfangi í ríkisfjármálum náðist í gær að skrifað var undir stöðugleikasáttmála á milli íslenska ríkisins og aðila vinnumarkaðarins þar sem samkomulag er um kjarasamninga til næstu tveggja ára eða til loka næsta árs. Þar eru samningar um að auka atvinnu eða með hvaða móti er hægt að reyna að hjálpa atvinnulífinu til að komast áfram, um endurreisn bankanna, gengismálin og vaxtamálin, þ.e. með hvaða hætti hægt er að sjá fyrir endann á þessu. Við þetta borð voru einnig sveitarfélögin en það hefur auðvitað legið fyrir um nokkurn tíma þegar menn voru að skoða hin opinberu fjármál að það er ekki bara ríkið sem skiptir máli heldur ekki síður aðrir opinberir aðilar sem eru sveitarfélögin í landinu. Við undirbúning að þessu var unnið mikið starf í Karphúsinu þar sem allir þessir aðilar höfðu verið við borðið og skoðað bæði tillögur ríkisstjórnarinnar sem birtast í bandorminum og skýrslu sem mun fylgja með og kemur í framhaldinu um ríkisfjármálin árin 2009–2013.

Það er auðvitað ómetanlegt ef hægt er að ná breiðri þjóðarsátt um þessi mál. Þarna hafa aðilar vinnumarkaðarins sýnt mikið og gott frumkvæði í góðu samstarfi við forustumenn ríkisstjórnarinnar við að reyna að ná utan um þetta verkefni sem er gríðarlega stórt sameiginlega og í heild. Þess vegna er það áleitin spurning hvort okkur takist ekki á Alþingi Íslendinga að ná einnig sameiginlegum lendingum og samstarfi og fylkjum okkur á bak við þann sáttmála sem þarna var undirritaður. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hvort ekki megi treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn komi með í þetta samstarf og styðji stöðugleikasáttmálann og vinni að málefnum í framhaldi af því.