138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hafi einhver efast um tilgang þessa frumvarps sem við ræðum hér tók hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af öll tvímæli í þeim efnum. Í ræðu sinni í upphafi lagði hann mjög út frá því að einn meginveikleikinn við fiskveiðistjórnina væri að allt of mikill sveigjanleiki hefði verið innleiddur í það kerfi, svo mikill sveigjanleiki að nú væri ráð að reyna að draga úr honum. Þessi málflutningur rímar ekki alveg við það sem maður hefur heyrt í áranna rás þegar við höfum rætt fiskveiðistjórnarmálin, hvort sem er á þinginu eða úti í þjóðfélaginu. Þar hefur einmitt verið kvartað undan því að fiskveiðistjórnarkerfið væri svo ósveigjanlegt og niðurnjörvað að þyrfti að opna það og gera það sveigjanlegra gagnstætt því sem væri í dag. Nú hefur hins vegar hæstv. sjávarútvegsráðherra kveðið upp úr með að það sé ákveðinn galli í þessu kerfi, það sé svo sveigjanlegt að það búi til möguleika sem hafi í för með sér afleiðingar sem nú þurfi að bregðast við. Þetta er út af fyrir sig alveg sjónarmið sem ég hlýt að virða og ganga þá út frá að sé grunntónninn í þeim breytingum sem hér eru innleiddar með framlögðu frumvarpi sem ríkisstjórnin stendur á bak við, og ríkisstjórnarflokkarnir væntanlega líka.

Það er alveg rétt að frumvarpið er á margan hátt til þess fallið að draga úr sveigjanleikanum og gera það með öðrum orðum niðurnjörvaðra en áður, draga úr möguleikunum sem menn hafa þá til hagræðingar og möguleikunum til að bregðast við breyttum aðstæðum, t.d. á sviði markaðsmála, þegar afli dregst saman eða eykst milli fiskveiðiára sem gefur tilefni til þess að menn reyni að vanda sig og draga úr sveiflunum sem af þessu hljótast. Það liggur þá fyrir að vilji ríkisstjórnarinnar er að hafa fiskveiðistjórnarkerfið þannig að minni möguleikar séu til að bregðast við þessu.

Þetta er líka dálítið sérkennilegt í ljósi þess að þó að hæstv. ráðherra reyni að tala niður þýðingu einstakra efnisgreina frumvarpsins er það samt þannig úr garði gert að mörg atriði þess eru stórmál. Hér er fitjað upp á grundvallarspurningum í fiskveiðistjórnarkerfinu og ekkert óeðlilegt við það. Á Alþingi koma auðvitað þessar grundvallarspurningar. Það er ekkert óeðlilegt að við ræðum það þegar að því kemur en við skulum ekki gleyma því að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt leikreglurnar. Hæstv. ríkisstjórn ákvað það fyrst í stefnuyfirlýsingu sinni og síðan með ákvörðun sinni fyrr á þessu ári að setja á laggirnar stóra nefnd, 18 manna nefnd ef ég man rétt sem í eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og fulltrúar hagsmunasamtaka, sem hafði það hlutverk að fara yfir þessa stóru drætti sjávarútvegsmálanna. Þess vegna hefði maður gert ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn mundi bíða með að leggja fram tillögur sínar í veigamiklum og umdeilanlegum málum þangað til nefndin lyki störfum. Nefndin er held ég með sinn þriðja fund í dag þannig að hún er ekki komin langt áleiðis með sína vinnu og það er alveg greinilega verið að taka fram fyrir hendurnar á nefndinni.

Hæstv. ráðherra fór yfir hugsun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum í ræðu sem hann flutti fyrir nákvæmlega hálfum mánuði, á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, og ég ætla að vitna í ræðu hæstv. ráðherra. Hann segir, með leyfi forseta:

„Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessari sömu stefnu í heiðri.“

Það fer ekkert á milli mála að hérna eru leikreglurnar settar. Hæstv. ráðherra bað sér með öðrum orðum griða, baðst undan því að þurfa að taka þá erfiðu umræðu sem þarf að eiga sér stað þegar við tökumst á við þessar grundvallarspurningar, og þess vegna er mjög undarlegt að hæstv. ráðherra skuli leggja fram frumvarp þar sem hann rýfur þau grið sem hann sjálfur bað um. Ríkisstjórnin áréttaði í rauninni þessi sjónarmið daginn áður en hæstv. ráðherra flutti þessi orð sín með yfirlýsingu hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra í tengslum við kjarasamningana þar sem því er lýst yfir að engin breyting hafi orðið á varðandi þann sáttafarveg sem endurskoðun fiskveiðistjórnarinnar hafi verið sett í með nefnd sem hæstv. ráðherra skipaði í sumar og ég hafði nokkur orð um áðan þar sem forsenda nefndarstarfsins væri að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma. Það liggur algjörlega fyrir að þetta frumvarp er hins vegar þannig úr garði gert að það brýtur í bága við þær leikreglur sem hæstv. ráðherra útskýrði sjálfur á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna og ríkisstjórnin áréttaði með yfirlýsingu hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra daginn áður.

Ýmislegt má auðvitað segja um þetta frumvarp, en eitt af því sem stendur upp úr er á vissan hátt stefnuleysi, stefnuleysi að því leytinu að hvað rekur sig á annars horn. Þá rifjast upp fyrir mér brot úr kvæði sálmaskáldsins frá Bægisá sem segir:

Eitt rekur sig á annars horn

eins og graðpening hendir vorn.

Sumu í þessu frumvarpi ætlað að stefna til einnar áttar en öðru til gagnstæðrar áttar. Það er eins og hæstv. ráðherra sé ekki búinn að gera upp hug sinn í stórum málum sem hann reynir þó að að kasta inn í þingið. Er hann t.d. fylgjandi auknum framsalsheimildum eða er hann á móti? Vill hann auka leigumarkaðinn á kvóta eða ekki? Það verður alls ekki lesið út úr þessu því að í öðru orðinu talar hæstv. ráðherra fyrir því að það sé brýnt að draga úr leiguframsali, telur t.d. að menn eigi ekki annað skilið sem leigðu frá sér skötusel en að þeim sé refsað, og síðan í hinu orðinu leggur hann til ákveðna hluti sem leiða til þess að auka leiguframsalið.

Hæstv. ráðherra talaði nokkuð um veiðiskylduna og það er ámælisvert að í frumvarpinu sem við ræðum hérna er engan rökstuðning að finna. Rökstuðningurinn kom að vísu fram í ræðu hæstv. ráðherra og það er auðvitað mjög til bóta og ástæða til að þakka fyrir það en tökum dæmi um veiðiskylduna sem er sennilega það mál sem menn hafa rætt hvað mest um, þ.e. framsalsheimildirnar sem leiða þá af því, og hefur verið stærsti ásteytingarsteinninn, helsta ágreiningsefnið þegar kemur að fiskveiðistjórnarkerfinu í landinu.

Það fer ekkert á milli mála að þetta er það sem maður heyrir oftast nær gagnrýnt. Sjómannasamtökin og LÍÚ hafa viljað draga úr leiguframsalinu, hafa viljað auka veiðiskylduna. Þessi samtök lögðu fram tiltekna leið. Sú leið er að vísu ekki farin hérna, við skulum láta það liggja á milli hluta, en það er boðuð önnur leið til að draga úr leiguviðskiptum með kvóta. Þetta er heilmikið álitamál. Nú sjáum við hins vegar í umræðunni í blöðum, og á bryggjunum þegar við ræðum við sjómenn, að það sem sjómenn hafa mestar áhyggjur af um þessar mundir er að ekki sé til nægjanlega mikið framboð af leigukvóta, það þurfi meiri heimildir til að menn geti leigt, til að menn hafi aðgang að aflaheimildunum. Þeir kvarta mjög undan því og af því að hér er m.a. staddur varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vil ég nefna að hún hefur líka vakið athygli á þessu og vill sérstaka rannsókn á því af hverju svona mikið hefur dregið úr leiguframsalinu. Hæstv. ráðherra talaði með svipuðum hætti á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þetta er mjög flókin og vandasöm spurning sem á ekki að undanskilja í þeirri stóru nefnd sem hæstv. ráðherra vitnaði hvað eftir annað til og er ætlað að taka á þeim stóru álitamálum sem eru uppi í sjávarútveginum.

Ef það á að kippa einu og einu álitaefni út úr starfi nefndarinnar, stórum álitaefnum, er auðvitað verið að gelda starf þessarar nefndar og gera það einskis virði, draga úr þýðingu þess og gera það aumlegt til að takast á við þetta risavaxna verkefni sem hæstv. ráðherra sagði að væri svo mikilvægt að nefndin hefði frið til að sinna. Ég held að við eigum einmitt við þessar aðstæður að fara mjög rækilega ofan í þessi mál. Menn hafa líka bent á í þessu sambandi, til að mynda trillukarlar, að þegar dregið er úr leiguframsalinu gerist það að þeir og einyrkjarnir, minni aðilarnir sem hafa minni heimildirnar, hafa minni aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Hæstv. ráðherra leggur hins vegar greinilega til að reyna að draga úr þessu leiguframsali með því að auka veiðiskylduna. Það er alveg sjónarmið, en þetta er hins vegar að mínu mati óútkljáð mál sem ætti að ræða áður en það kemur inn í þingið á vettvangi nefndarinnar úr því að hún var á annað borð sett á laggirnar til að takast á við þessi stóru álitamál.

Varðandi geymsluréttinn er hins vegar verið að horfa til annarrar áttar. Þar er greinilega það yfirlýsta markmið að reyna að stuðla frekar að auknu leiguframboði og draga úr sveigjanleikanum sem er í kerfinu. Það er engin tilviljun að við höfum verið með þennan geymslurétt alveg frá upphafi kvótakerfisins. Það hefur verið gert til að búa til sveigjanleika, til þess að menn gætu brugðist við breytilegum aðstæðum.

Við skulum bara taka einn þátt þess máls sem er markaðsaðstæðurnar í sjávarútveginum. Þegar hæstv. ráðherra dregur t.d. úr aflaheimildum í ýsu hefur það áhrif á markaðinn. Menn hafa í vaxandi ýsugengd verið að vinna sér markaði erlendis fyrir ýsuna og þá er það auðvitað gífurlega mikið mál til að geta haldið því markaðsstarfi áfram að það sé einhver samfella og einhver sveigjanleiki í þessu kerfi. Þess vegna hafa þeir sem stunda þessa markaði nýtt sér þennan geymslurétt til að hafa meiri aflaheimildir til notkunar á þessu fiskveiðiári þegar það var fyrirsjáanlegt að mundi draga úr aflaheimildum í ýsunni. Þess vegna hafa þeir augljóslega reynt að fara í að geyma hjá sér aflaheimildir í því skyni, ekki endilega til að leigja þessar aflaheimildir frá sér heldur fyrst og fremst til að geta nýtt þær sjálfir, til að halda uppi eðlilegri vinnslu á þessu fiskveiðiári með minni aflaheimildum í ýsu til þess bæði að geta haldið uppi atvinnustiginu og sinnt þeim mörkuðum sem þeir hafa byggt upp með miklu og dýru markaðsstarfi sem núna á að reyna að gera að engu með þeim hugmyndum sem hæstv. ráðherra er með.

Þegar við skoðum tölurnar er rangt að þessi geymsluskylda hafi haft þær afleiðingar sem hæstv. ráðherra segir. Það fóru ekki nema 5% sem voru í geymslu á þorski milli fiskveiðiára núna sem er svipað og árið á undan, meira en á árinu þar á undan, og fyrir því eru tilteknar ástæður. Í ýsunni hafa menn nýtt sér geymsluréttinn meira. Þó geymdu menn ekki nema tæplega 15% á milli fiskveiðiára en ástæðurnar eru þær sem ég er að segja, menn voru að búa sig undir það sem var fyrirsjáanlegt með ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í byrjun júnímánaðar, þá var fyrirsjáanlegt að eitthvað drægi úr úthlutuðum aflaheimildum í ýsu og auðvitað reyndu menn að bregðast við því.

Það var aðeins talað um skötuselinn áðan og hv. þm. Þór Saari seildist nokkuð langt þegar hann vitnaði til eiginlegra orða sjálfs tunglfarans Armstrongs og talaði um stórt skref fyrir mannkynið þó að það væri kannski ekki stórt fyrir manninn sem skrefið tók. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, útbreiðsla skötuselsins hefur breyst. Við þurfum að bregðast við því, það er alveg rétt. Það eru ýmsar leiðir í því sambandi, t.d. sú að beita meðaflareglu sem hefði að mínu mati verið hin eðlilegasta nálgun á þetta mál. Hér er hins vegar farin afskaplega hæpin leið, enda er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki mjög mikla sannfæringu í þessum efnum. Hann segir að þetta sé til tveggja ára, gert í tilraunaskyni o.s.frv. Hæstv. ráðherra vísar til þess að mikil breyting hafi orðið á útbreiðslusvæði skötusels. Alveg rétt, en það á við um fleiri tegundir. Ýsan hefur heldur verið að breytast í útbreiðslumynstri sínu. Ég var á dögunum á Hólmavík og Drangsnesi. Þar komast menn ekki á sjó af því að það er svo mikil ýsa og lítill þorskur. Þegar aflareynslan stofnaði til kvóta var engin ýsa í Húnaflóanum. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hyggst hann þá ekki bregðast við þeim sérstaka vanda sem þarna er og víðar með því að beita svipaðri reglu í ýsunni? (Gripið fram í.) Núna veiðist síldin öll inni í Breiðafirði, hún veiddist fyrir Austurlandi og ég spyr hæstv. ráðherra: Eru ekki sömu rökin þarna? Einu sinni var steinbíturinn kallaður Vestfirðingurinn af því að hann veiddist bara fyrir vestan. Nú veiðist hann líka fyrir austan. Mega vestfirskir sjómenn og útvegsmenn, t.d. trillukarlarnir þar, gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra taki 2–3.000 tonn af steinbítnum og bjóði hann upp á hinum nýja leigumarkaði sem væntanlega verður deild í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu?

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman heldur illa undirbúið og hæstv. ráðherra er greinilega hikandi við ýmislegt af því sem hann er að segja. Um leið og hann segist ætla að minnka geymsluréttinn opnar hann á heimild um að hann geti með einu pennastriki sjálfur, án þess að spyrja Alþingi, breytt þessum reglum hvenær sem honum hentar og þá eru engin takmörk. Það er sagt að hann megi auka geymsluréttinn eins mikið og hann vill og honum dettur í hug, að vísu eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar, en hann hefur valdið. Hann ætlar að taka þetta vald, (Forseti hringir.) þessa stefnumótun úr höndum Alþingis og færa inn í ráðuneyti sitt þannig að hann (Forseti hringir.) geti ráðskast með þetta prívat og persónulega.