150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

vegur um Dynjandisheiði.

[10:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og áhugann á samgöngubótum á Vestfjörðum. Það er rétt að við höfum í þessum þingsal á síðustu vikum meira talað um 120 milljarða framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en á sama tíma eru mjög mörg brýn verkefni hringinn í kringum landið, þar á meðal að ljúka grunnkerfinu á Vestfjörðum sem ekki er að öllu leyti lokið. Því má a.m.k. halda fram að sumir vegirnir þar séu ekki boðlegir nútímanum. Hins vegar er rétt fyrir okkur í þessum þingsal að hafa það í huga þegar við komum með þingsályktunartillögur um að setja einhverja vegi inn eða keyra inn einhver göng að ef menn hafa ekki hugsað það með nægilegum fyrirvara eru menn ekki undirbúnir undir þær framkvæmdir og þá taka þær býsna langan tíma. Ég nefni sem dæmi að þrátt fyrir að búið sé að tala um göng til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði í mörg ár og búið að rannsaka verkefnið mun það engu að síður taka tvö ár frá því að ákvörðun í þinginu yrði tekin þangað til hægt yrði að bjóða slíkt verk út. Hið sama gildir um vegi fyrir vestan. Það tekur einfaldlega talsverðan tíma að fara í frumhönnun, síðan í umhverfismat og loks frekari hönnun áður en hægt er að bjóða út. Vegagerðin hefur ekki heimild til þess að undirbúa slík verk nema búið sé að setja fjármagn til þess. Þegar við í þessum sal tökum ákvarðanir og færum hluti langt fram í tímann án þess að tryggja nægilegt fjármagn til enda þær einhvers staðar úti á túni. Þær eru ekki undirbyggðar með því sem þarf til.

Þess vegna er svo mikilvægt að horfa á 15 ára tímabil. Þess vegna er svo mikilvægt að koma aftur inn með jarðgangaáætlun sem við erum búin að ákveða með nægilega löngum fyrirvara (Forseti hringir.) hvert stefni. Ég er ekki viss um að það sé alltaf best að bjóða út í einu útboði ólík verk sem eiga að fara fram á sjö, átta árum. Það getur líka verið skynsamlegra að bjóða út í minna mæli. Ég treysti Vegagerðinni til að meta það á hverjum tíma.