151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mér finnst viðeigandi og raunar nauðsynlegt að minnast á þá staðreynd að í dag, 25. nóvember, er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn í dag er mikilvæg áminning þess að enn eigum við langt í land þegar kemur að því að uppræta það grafalvarlega mein sem ofbeldi er í samfélagi okkar, hvað þá á heimsvísu. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verður þriðja hver kona fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á ævi sinni um heim allan, oftast í nánum samböndum. Staðreyndin er sú að í miðjum heimsfaraldri hafa fleiri tilkynningar borist hér á landi um heimilisofbeldi á þessu ári en á sama tíma síðustu þrjú árin. Síðustu þrjú ár, herra forseti.

UN Women hafa bent á þá staðreynd að margar konur og stúlkur um heim allan séu bundnar heima með ofbeldismönnum sínum vegna samkomutakmarkana og útgöngubanna. Jafnframt hefur fjármagni verið stýrt frá úrræðum og stoðþjónustu fyrir þolendur ofbeldis. Þetta er grafalvarleg staða, virðulegi forseti, sem ekki verður hunsuð. Það er því miður svo að kynbundið ofbeldi er hrein og klár skuggahlið af Covid-19. Þessi ofbeldishrina er ekkert annað en skuggafaraldur.

Langtímaafleiðingar af slíku ástandi eru augljósar og hljóta að eiga skilið mikla athygli af okkar hálfu hér á Alþingi. Það hlýtur að liggja beinast við að koma á sérstökum aðgerðapakka til að koma í veg fyrir langtímaafleiðingar.

Hér á þingi verður mönnum tíðrætt um frelsi. Það hlýtur því að liggja beint við að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að verja frelsi kvenna til að þurfa ekki að búa við ofbeldi.