153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd.

[15:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ráðherranum finnst eitthvað óþægilegt að vera gagnrýndur fyrir að hafa bara gagnrýnt framkvæmdina, sem vissulega var fullkomlega óboðleg og ekki eitthvað sem á að sjást til í siðuðu samfélagi, en stóri glæpurinn í þessu er brottvísunin sjálf. Það er ágætt að heyra að talpunktar Jóns Gunnarssonar hafa náð eyrum ráðherrans frekar en mótmæli t.d. Þroskahjálpar. Það er ekki endanleg niðurstaða í þessu máli þó að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi komist að því að vísa eigi fötluðum einstaklingi á götuna þjónustulausum í Grikklandi. Það er ekki endanleg niðurstaða í máli sem verður tekið til aðalmeðferðar 18. þessa mánaðar, eftir 11 daga. Maður hefði haldið ef ráðherrann hefði snefil af metnaði fyrir málefnum fatlaðs fólks að hann myndi vilja fá niðurstöðu í þetta umdeilda mál, að hann vildi fá að vita hvernig lögin liggja frekar en að sparka þessum einstaklingum úr landi til þess akkúrat að koma í veg fyrir að dómstólar sýni hvað er rétt og hvað ekki. (Forseti hringir.) Í staðinn ákveður ráðherrann að Jón Gunnarsson sé sá sem hefur rétt fyrir sér í þessu máli. (Forseti hringir.) Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála eru ekki endapunkturinn þó að Jón Gunnarsson segi það. Félagsmálaráðherra þarf að átta sig á því (Forseti hringir.) ef hann ætlar að vera starfi sínu vaxinn.