133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:38]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil eiginlega ekki þessa útúrsnúninga hjá hv. þingmanni og af hverju hann er svo önugur þegar hann er að ræða þessi mál. Hér er aðeins verið að velta upp hugmyndum og alveg óþarfi að vera með útúrsnúninga.

Ég er aðeins að benda á að það eru tvær hæðir sérstaklega merktar Náttúrufræðistofnun. Ef hún er að flytja annað er eðlilegt að selja húsnæðið og nýta fjármagnið í þágu Náttúrufræðistofnunar. Hvort fást fyrir það 500 milljónir, einn eða einn og hálfur milljarður, ég hef ekki hugmynd um það frekar en hv. þingmaður. En þetta eru þó alla vega verðmæti

Hvar þetta (Gripið fram í.) verður staðsett er það sem frumvarpið gengur út á, þ.e. að fara yfir þá vinnu sem þegar hefur verið unnin, að fá forstöðumann til að leiða safnasamfélagið og náttúrufræðisamfélagið að því hvernig best er að standa að slíku. Það eigum við að nálgast á opinn hátt en ekki svona lokaðan eins og hv. þingmaður.

Ein af þeim hugmyndum sem varpað hefur verið fram er að nýta þá þúsundir fermetra sem (Forseti hringir.) sem ríkið á á Keflavíkurflugvelli. Kannski gengur það og kannski ekki. (Forseti hringir.) En við eigum að skoða það. Ekki vera svona forpokuð.