138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur um hve margir bátar hann reiknar með að hefji beina sókn í skötuselsveiðar eftir þessar breytingar. Síðan langar mig í öðru lagi að spyrja hann um hvað mörg net hefðbundinn vertíðarbátur er með í sjó og hver lengdin er, annaðhvort í sjómílum eða kílómetrum.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra telur að þær breytingar sem verið er að gera á karfaúthlutun hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á minni togskip, vegna þess að það liggur fyrir að hægt er að gera þetta með öðrum hætti en uppálagt er í frumvarpinu. Það er hægt að úthluta þessu miðað við veiðireynslu en ekki fara að deila þessu á vefinn, eins og er lagt til í frumvarpinu.