139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

samgöngumiðstöð.

[13:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér kemur hæstv. samgönguráðherra og fullyrðir að þetta verði allt saman ódýrara og betra þegar til lengdar lætur. Ég er að biðja um rök. Hvaða rök liggja fyrir því að þetta sé hagkvæmast? Það hefur staðið til frá árinu 2002 að ráðast í þessa framkvæmd.

Fyrrverandi samgönguráðherra Kristján Möller var í útvarpsfréttum Bylgjunnar, var ég að fá fréttir af, og lýsti því yfir að ef þessi áform yrðu að veruleika flyttist innanlandsflug til Keflavíkur. Það yrði gríðarlegt áfall ofan á öll önnur áföll fyrir landsbyggðina. Það er engum blöðum um það að fletta. Það skiptir öllu máli að hér verði innanlandsflug, það séu góðar samgöngur við höfuðborg allra landsmanna. Nú þurfa forsvarsmenn borgarinnar að ákveða (Forseti hringir.) hvort þeir vilji stjórna borg sem ætlar að vera höfuðborg fyrir þá sjálfa bara en ekki alla landsmenn. Erum við hugsanlega að tala hérna um (Forseti hringir.) algjöran aðskilnað milli borgar og landsbyggðar?