150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

vegur um Dynjandisheiði.

[10:51]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gríðarlega mikilvægt að við hefjumst handa við vegaframkvæmdir um leið og umhverfismatið er tilbúið. Sporin hræða og það er mikilvægt að vanda sig svo að við lendum ekki í öðru Teigsskógarfíaskó, ég vil kalla þá sögu það. Sú sorgarsaga er orðin 20 ára gömul og Vestfirðingar hræðast það og þess vegna þarf að skoða þetta í samhengi. Af því að ráðherrann er líka sérstakur áhugamaður um að sameina sveitarfélög, og það er í umræðu fyrir vestan að skoða jafnvel alla Vestfirðina saman, skipta framkvæmdir af þessu tagi gríðarlega miklu máli.

Að lokum vil ég hvetja ráðherra til að tryggja að vetrarþjónusta verði á Dynjandisheiði þar til að vegurinn verður endurbyggður.