150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

66. mál
[17:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, lýðræðið kostar og þeir sem taka ákvörðun um fjölda sveitarstjórnarmanna horfa á marga aðra þætti en kostnaðinn. Ég bara nefni þetta atriði sérstaklega vegna þess að bæði hér í þinginu og annars staðar var því ítrekað haldið fram að fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík myndi ekki leiða til aukins kostnaðar vegna þess að það væri hvort sem er búið að virkja fyrstu varamenn með þeim hætti að þeir væru fúnkerandi eins og aðalmenn. Það myndi auðvitað breytast þegar fjölgunin ætti sér stað en sú hefur þó ekki orðið raunin. En látum það nú vera.

Hins vegar erum við hv. þingmaður sennilega ósammála um það grundvallaratriði hvort löggjafinn eigi endilega að setja skorður að þessu leyti eða hvort það á að vera ákvörðunaratriði sveitarstjórnarinnar sjálfrar, eins og í tilviki allra þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem eru með 100.000 íbúa eða fleiri. Þetta er almenn regla sem nær til allra sveitarfélaga sem ná þeim stærðarmörkum í landinu og það er einfaldlega skoðanaágreiningur sem ekki verður leystur öðruvísi en með því að kanna hver hugur manna í þinginu er almennt til þeirrar spurningar. Ekki er með neinum öðrum hætti hægt að leiða fram einhverja niðurstöðu í þeim ágreiningi hvort menn telji yfir höfuð að löggjafinn eigi að setja slík mörk eða hvort það eigi að vera ákvörðunaratriði viðkomandi sveitarstjórnar sjálfrar. Ég fer ekkert ofan af því að mér finnst það ekkert óeðlilegt að í tilviki borgarstjórnar Reykjavíkur sé það hún sjálf sem tekur ákvörðun um það hvort borgarfulltrúar verði áfram 23 eða hvort þeim fækki í 19 eða 17 eða 15, eða hvort þeim verði fjölgað upp í 25. Mér finnst ekkert óeðlilegt að það sé borgarstjórnin sjálf sem taki slíka ákvörðun og beri ábyrgð á henni frekar en að við séum að kássast upp á það hér í þinginu.