Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd.

[16:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Atburðir liðinnar viku og síðustu tveggja vikna fóru vitanlega ekki fram hjá nokkru mannsbarni þar sem lögreglan hefur gengið berserksgang um landið í leit að umsækjendum um alþjóðlega vernd sem vísa átti úr landi og fleygja á götuna í Grikklandi. Það er svo sem ekki endilega nýmæli hér að fólk sé flutt úr landi í skjóli nætur en sú harka sem sást í vinnubrögðum lögreglu og þessum eltingarleik — og jafnvel í málum sem niðurstaða var ekki komin í, það kom á daginn að fólk var að bíða eftir niðurstöðu í mál sitt — vakti mikla reiði þjóðarinnar. Þó að ekki sé liðin vika hefur tvisvar sinnum verið mótmælt hér á Austurvelli þangað sem komið hafa hundruð ef ekki þúsundir einstaklinga til að mótmæla. Mig langaði til að spyrja hvort við ætlum raunverulega að sitja hér og láta eins og ekkert hafi í skorist í stað þess að kalla á ríkisstjórnina og spyrja hvort ekki eigi að bregðast með einhverjum hætti við þessari augljósu reiði almennings vegna þessara fáránlegu aðgerða.