133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:01]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar vil ég fara yfir það að við höfum tekið miklum framförum í fjárlagavinnunni. Fjárlagagerðin hefur staðist upp á dag síðustu 3–4 árin en áður fyrr dróst hún jafnvel fram yfir áramót. Þegar hv. þingmaður talar um skynsemi stjórnarmeirihlutans held ég að tölurnar tali sínu máli, þegar ríkissjóður er rekinn með hátt í 160 milljarða kr. afgangi á árunum 2005 og 2006. (Gripið fram í.) Er eitthvað óskynsamlegt við þessa stefnu sem stjórnarmeirihlutinn hefur viðhaft hér? Og við höfum verið með raunaukningu um eða yfir 50% til heilbrigðis- og félagsmála og 80% til háskólastigsins. Að sjálfsögðu hefur hér verið haldið skynsamlega á málum og ef hv. þingmaður mundi nú kynna sér það hver staða ríkissjóðs er hér miðað við stöðu ríkissjóðs í öðrum löndum sem við berum okkur saman við er þar ólíku saman að jafna.