142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ítarlega yfirferð á nefndaráliti í þessu máli. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því er varðar umsögn Persónuverndar um þetta mál. Í umsögn Persónuverndar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu. Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér um ræðir til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga.“

Það sem sagt liggur fyrir í umsögninni að Persónuvernd telur að sú útfærsla sem valin er í þessu frumvarpi fari í bága við bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Það má skilja á ræðu hv. þingmanns og nefndaráliti meiri hlutans að komið sé til móts við þessi sjónarmið og þessa gagnrýni með því að takmarka gildistímann við fjögur ár. Þá hljóta menn að velta upp einni spurningu og ég vil inna hv. þingmann eftir skoðun hans á því: Er sem sagt í lagi að fara í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu ef það er bara til tiltekins tíma, í þessu tilfelli fjögurra ára? Er það sem sagt í lagi? Var verið að koma til móts við upphaflega annmarka á frumvarpinu sem átti að gilda um alla eilífð með því að takmarka tímann sem á að fara í bága við stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu við fjögur ár? Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort það sé viðhorf meiri hlutans sem skrifar undir þetta nefndarálit að það sé í lagi þegar um takmarkaðan tíma er að ræða.