149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

afnot af Alþingishúsinu.

[15:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Um helgina var haldinn í anddyri þinghússins ákveðinn atburður í tengslum við fullveldisafmæli Íslands. Þar hafði Mjólkursamsalan forgöngu um að afhenda hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, nýjar mjólkurfernur sem hafa verið sérmerktar í tilefni fullveldisafmælisins. Við sem hér störfum vitum að reglan er sú að húsið er ekki notað til kynningar á vörum og hafa mörkin þar verið nokkuð skýr.

Úr varð þessi fína ljósmynd af forsætisráðherra með mjólkurfernurnar góðu fyrir framan málverk af Jóni forseta. Aðspurður segir síðan skrifstofustjóri Alþingis að ekki sé um neina vörusýningu eða vöruauglýsingu að ræða heldur fyrst og fremst atburð sem tengist hátíðardagskránni. Gott og vel. Þá hlýt ég að spyrja: Getur hvaða fyrirtæki sem er útbúið nýjar umbúðir í tilefni af fullveldisafmælinu og fengið forsætisráðherra til að sitja fyrir og auglýsa þannig vörurnar?

Það skal tekið fram að Mjólkursamsalan er í eigu samvinnufélags kúabænda og Kaupfélags Skagfirðinga. Fyrirtækið er í svokallaðri samkeppni við aðra framleiðendur mjólkurafurða og hefur verið dæmt vegna samkeppnisbrota, síðast á þessu ári. Þótt þessi uppákoma endurspegli í raun ákveðna einokunarstarfsemi á mjólkurmarkaði, sem kemur ekki á óvart miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar, er það umhugsunarefni. Hvernig er það metið hvort þetta sé gert í markaðslegum tilgangi eða ekki? Það er alþekkt að nýta svona leiðir til markaðssetningar, t.d. með áhrifavöldum. Þeir sem mættu í anddyri til að afhenda vöruna voru einmitt forstjóri Mjólkursamsölunnar, sá góði maður, markaðsstjóri og markaðsfulltrúar. En var þetta ekki í markaðslegum tilgangi?

Í ríkissjónvarpinu hafa verið sýndir þættir síðustu vikurnar sem eru kallaðir Sítengd. Þar er farið yfir áhrif af markaðssetningu áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Í ljósi þess hlýtur maður að spyrja: Hvað kostar klukkustund með forsætisráðherra, líklega mesta áhrifavaldi landsins? Er virkilega ekki um dulda auglýsingu að ræða? Hefði mögulega átt að setja undir myndina #samstarf, eins og Neytendastofa hefur ítrekað bent á að sé nauðsynleg forsenda þess að neytendur átti sig á hvort um dulda auglýsingu sé að ræða eða ekki?

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvar eru mörkin í þessu tilfelli og telur forsætisráðherra rétt að setja nánari reglur um þetta?