149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál.

238. mál
[16:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum um stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli hér og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Þá langar mig sérstaklega að koma inn á það sem ég tel mjög mikilvægt og ráðherra kom ágætlega inn á í sinni ræðu, en það er að við horfum á þetta í víðum skilningi og notum okkur þau tækifæri sem við höfum núna í norðurslóðamálum og í formennskunni þar.

Ég tel, virðulegi forseti, að sá málaflokkur er lýtur að norðurslóðamálum sé einn af okkar mikilvægustu í utanríkismálum. Ég held að það sé einstakt tækifæri núna í formennsku okkar að setja þau mál enn frekar á dagskrá. Við erum með öflugar rannsóknastofnanir undir háskólanum sem er að fjalla um þetta mál og ég vænti þess að við sjáum þær blómstra enn frekar á þessu formennskuári okkar. Þar höfum við tækifæri til að koma okkar mikilvægu málum á framfæri og setja þau á dagskrá. Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessu, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að horfa á málin í svolítið víðum skilningi.