150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða geðheilbrigðisvanda ungs fólks og ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir umræðuna og ráðherra einnig fyrir að taka þátt. Við verðum að horfa á þetta frá einu sjónarhorni. Hvað gerum við þegar við erum búin að setja fólk inn á stofnun eða hjálpa því á einhvern annan hátt, koma því á lyf? Hvað tekur svo við? Því miður er staðreyndin sú að þegar fólk er útskrifað t.d. af geðdeild er hægt vegna persónuverndarsjónarmiða að útskrifa einstaklinga án þess að nokkur taki við þeim, ekki nokkuð eftirlit, ekkert, bara beint út á götu. Ég veit af slíkum tilfellum, þegar þetta eftirlitsleysi er til staðar, þar sem einstaklingur hefur tekið eigið líf.

Við erum með óviðunandi húsnæði hjá geðdeild Landspítalans. Þar þarf að taka til, þetta er gamalt húsnæði, úr sér gengið, nágrannaþjóðir okkar eru með mun nútímalegra og betra húsnæði.

Hvað tekur síðan við þegar ungir einstaklingar í fíkniefnamálum eru útskrifaðir, t.d. frá SÁÁ eða öðrum stofnununum? Ekkert nema gatan. Félagsleg úrræði, bætur? Það er ekkert sem tekur við. Þarna erum við komin að kjarna málsins. Við erum að missa stóran hóp af ungu fólki í sjálfsvíg. Við erum að missa fleira ungt fólk í sjálfsvíg heldur en deyr í umferðarslysum. Hvað gerum við þegar fólk deyr í umferðarslysum? Við sendum rannsóknarnefndir af stað, það hringja allar viðvörunarbjöllur, það er einhver sem gerir eitthvað. Hvernig væri það ef við værum með viðbragðsteymi í þeim málum og sæjum til þess að það þurfi ekki neinn einstaklingur að vera einn, útskrifaður, úti á götu og standa þar aleinn án nokkurrar hjálpar?