151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:32]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Við höfum allt frá byrjun verið að fara yfir það með hvaða hætti hægt er að grípa inn í og bregðast við og skapa störf. Með ýmsum hvataaðgerðum, hvort sem er í skattkerfi eða, eins og við erum að gera hér, með ráðningarstyrkjum, er hægt að ýta undir að störf skapist. Einnig má nefna einföldun regluverks ýmiss konar, eins og við erum með í undirbúningi þegar kemur að húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmálum, sem tengist allt lífskjarasamningunum. Allt virkar þetta mjög vel og er mikilvægt.

Ef við ætlum að ráðast á þann stóra stabba sem atvinnuleysið er, þessa miklu aukningu, þá sýna allar greiningar að það verður ekki gert nema með því að koma ferðaþjónustu af stað aftur, en við ætlum að gera það til skamms tíma. Þó að við séum að taka aðgerðir sem ráðist var í hér í efnahagshruninu og þrefalda þær eða fjórfalda þá er það einfaldlega þannig að þegar við kippum heilli atvinnugrein úr sambandi er mikilvægast að halda fyrirtækjunum öflugum eða aðstoða þau við að vera lifandi þegar viðspyrnan hefst. Til skemmri tíma er það svo, en til lengri tíma má hugsa sér ýmsar hvataaðgerðir til að hvetja íslenskt atvinnulíf til að sækja fram, hvetja til nýsköpunar sem gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar með mjög myndarlegum framlögum, einfaldara regluverki, sem ég hef komið að þegar kemur að húsnæðis- og mannvirkjagerð o.s.frv. Allt eru það fremur langtímaáhrif sem þar eru undir en ekki er síður mikilvægt við þessar aðstæður að hafa þetta í huga.