151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:27]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svarið og undirstrika að þetta er góður áfangi og gleðilegur viðburður. Ég undirstrika líka að þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir fjölskyldur og íbúa á landsbyggðinni og auðvitað að einhverju leyti fyrirtæki. En ég spyr ráðherra hvort við þurfum ekki að endurskoða afstöðu okkar í þessum málum með það í huga að tryggja eins og kostur er að algengustu lífsnauðsynjar, sem þetta auðvitað er, og almenn þjónusta standi til boða á sama verði hvar sem er á landinu. Raforkan er auðvitað einn þáttur, heitt og kalt vatn, og ég tala nú ekki um vöruverð og flutningaþjónustu, en það er kannski snúnara dæmi fyrir opinber yfirvöld að koma að.

Ég spyr líka: Hefur okkur ekki dagað uppi einhvers staðar í ferlinu í fráleitum og úreltum hugsunarhætti í þeim efnum? Þetta er grunnþjónusta. Við munum, þeir sem eru eldri en tvævetur, eftir því þegar greitt var sérstaklega fyrir langlínusamtöl og skref voru misstór í símasamskiptum eftir því hvar við bjuggum á landinu. Hverjum dettur þetta í hug núna? Gildir ekki nákvæmlega það sama varðandi raforkuna? Hún er auðlind sem á sér uppsprettu víða um land en þeir sem fórna kannski landi undir línur borga skelfilegt verð fyrir orkuna sína.

Sér ráðherra fyrir sér einhverjar skipulagsbreytingar, hún tæpti þó á því áðan, varðandi umgjörð raforkudreifingar og sölu í landinu? Er það kannski nauðsynlegt til að ná frambúðarjöfnuði í þessu? Við erum að tala um þennan jöfnuð núna, en eykst ekki bilið fljótt aftur?

Rétt í lokin: Hæstv. ráðherra tæpti á hugsanlegum sameiningum dreifiveitna. (Forseti hringir.) Getur ráðherra eitthvað skotið á hvað það muni skila mikilli hagræðingu?