154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

staða heyrnarskertra og skortur á heyrnarfræðingum.

[10:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að taka upp þetta brýna málefni. Það er rétt, lýðfræðin er að breyta stöðunni og breyta stöðunni hratt og sá er hér stendur verður auðvitað að taka ábyrgð á því að því miður hefur ýmislegt sem snýr að málefnum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar dregist. Hv. þingmaður kemur hér að beinum spurningum í lok síns máls sem sneru að því hvort ráðherrann hygðist beita sér fyrir auknu fjármagni og endurskoða niðurgreiðslur. Stutta svarið er bara: Já, það er þegar í skoðun og undanfarin misseri hefur verið brugðist við með aukafjárveitingum, þegar á þessu ári með 100 millj. kr. aukaframlagi. En það er ýmislegt sem hefur því miður dregist úr hófi þess utan. Já, ég er með niðurgreiðslurnar til skoðunar, endurskoðun á þeim. Þetta er mjög brýnt og við erum með málefni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar í sérstakri skoðun í ráðuneytinu og erum að reyna að vinna hratt. Það hefur því miður dregist úr hófi í allt of langan tíma að bæta úr aðstöðunni, aðstöðuleysi, húsnæði. Heyrnar- og talmeinastöðin hefur verið í sama húsnæði í 40 ár og það er búið að vera að leita í langan tíma að nýju húsnæði. Það hefur strandað á þeim breytingum sem fylgja í samningum við leigusala. Það þarf að gera breytingar til að koma fyrir nýjum heyrnarklefum, huga að hljóðvist og gera aðstöðuna mun betri. (Forseti hringir.) Við erum líka með þetta mál í sérstökum farvegi og með sérstaka áherslu á það. (Forseti hringir.) Ég skal halda áfram að svara því sem við erum með til sérstakrar skoðunar þess utan varðandi þetta brýna málefni og mál Heyrnar- og talmeinastöðvar.