135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:01]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 218, 203. mál þingsins en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er í megindráttum lagt til að verðmiðlunar- og verðtilfærslugjöld verði lögð niður en innheimta þeirra hefur verið á hendi hins opinbera. Einnig er lagt til að heimild mjólkuriðnaðarins til verðtilfærslu milli einstakra mjólkurafurða verði afnumin.

Svo vikið sé að einstökum ákvæðum frumvarpsins er í 1. gr. þess mælt fyrir um heimild verðlagsnefndar búvöru til að verðleggja einstakar vörutegundir þannig að þær skili mismunandi framlegð. Með þessu ákvæði er í raun verið að skýra heimildir nefndarinnar en hún hefur um langt árabil haft þetta hlutverk á hendi. Af þessu leiðir t.d. að nefndin getur ákveðið framlegð af framleiðslu og sölu neyslumjólkur þannig að hún verði minni en framlegð á skyri eða ostum eða öfugt. Þetta er eðlilegt í samræmi við verðlagningu eins og hún mundi gerast á frjálsum markaði þar sem aðstæður geta ráðið því hvernig framleiðni er reiknuð, hvað menn ætla sér mikla framleiðni af einstökum vöruflokkum. Um þetta er víðtæk sátt í verðlagsnefnd búvöru en þar sitja fulltrúar samtaka launþega, Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði auk fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins.

Í 1. gr. frumvarpsins er að auki mælt fyrir um brottfall 3. mgr. 13. gr. búvörulaganna sem er undanþáguákvæði í búvörulögum frá samkeppnislögum. Efnislega víkur 3. mgr. 13. gr. búvörulaga, eins og hún er nú, til hliðar vissum ákvæðum samkeppnislaga og heimilar afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að beita verðtilfærslum sem kunna að fara í bága við samkeppnislög. Þar er um að ræða svonefnda frjálsa verðtilfærslu sem Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa samið um sín á milli og kynnt verðlagsnefnd hverju sinni. Með brottfalli þessarar heimildar er m.a. verið að bregðast við ábendingu Samkeppniseftirlitsins um opinberar samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um brottfall 19. gr. búvörulaga sem mælir fyrir um innheimtu verðmiðlunargjalds að fjárhæð 65 aura af hverjum mjólkurlítra sem lagður er inn í afurðastöð innan greiðslumarks. Í 19. gr. eru ítarlegar reglur um hvernig ráðstafa skuli þessu gjaldi til markaðra útgjaldaliða. Grunnhugmyndin með verðmiðlunargjaldi var að tryggja skyldi að öllum afurðastöðvum væri kleift að greiða framleiðendum fullt verð fyrir búvöru. Gjaldinu hefur verið ráðstafað til styrktar rekstri afurðastöðva sem búið hafa við erfiðar aðstæður. Síðustu ár hafa einungis afurðastöðvarnar á Ísafirði og Vopnafirði notið þessara styrkja. Nú hefur afurðastöðin á Vopnafirði verið lögð niður og í kjölfar stofnunar nýs rekstrarfélags í mjólkuriðnaði, MS ehf., sem afurðastöðin á Ísafirði var hluti af, má segja að ekki séu lengur forsendur fyrir þeirri ráðstöfun. Gjaldinu hefur einnig verið ráðstafað til jöfnunar- og flutningskostnaðar framleiðenda en það fyrirkomulag er orðið úrelt og hefur í raun verið aflagt. Í þriðja lagi hefur verðmiðlunargjaldið verið nýtt til styrktar flutningi á mjólkurvörum til afskekktari byggða landsins svo sem Grímseyjar og Vestmannaeyja.

Allar framangreindar forsendur fyrir innheimtu og útdeilingu verðmiðlunargjalds eru brostnar með hliðsjón af breyttum markaðsaðstæðum, aukinni hagræðingu sem tekist hefur í rekstri afurðastöðva og ábendingum samkeppnisyfirvalda.

Í 3. gr. frumvarpsins er síðan kveðið á um brottfall 22. gr. búvörulaga sem mælir fyrir um innheimtu verðtilfærslugjalds að fjárhæð 2,65 kr. af hverjum innvegnum mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks. Sömu rök og ég hef áður gert grein fyrir varðandi niðurfellingu verðmiðlunargjalds leiða til þess að hætta skuli innheimtu verðtilfærslugjalds. Með aukinni hagræðingu og sameiningu í mjólkuriðnaði er ekki lengur nauðsynlegt að stjórnvöld hafi áfram þau verkfæri með höndum sem búvörulögin hafa lagt til þeirra í verðlagsmálum mjólkurafurða. Augljóst er að það er arfur frá liðinni tíð, eðlilegra er að verðlagning einstakra búvara endurspegli raunkostnað við framleiðslu en að við höldum viðurhlutamiklu tilfærslukerfi sem auk þess er með öllu ónauðsynlegt.

Tilfærslukerfið leiðir til þess að verðlagning á einhverjum mjólkurafurðum er hærri en ella en lægri en ella í öðrum tilvikum og ræðst þar með ekki algjörlega af framleiðslukostnaði eða framboði og eftirspurn. Auðvitað er verið að senda misvísandi skilaboð inn á markaðinn með verðtilfærslugjöldum, bæði af stjórnvöldum og seljendum hennar. Þetta gerir það líka að verkum að við aðstæður þar sem myndaðist samkeppni má ætla að þeir sem byggju við þessa verðtilfærslu væru illa í stakk búnir að mæta slíkri samkeppni. Augljóst er að sá sem kemur inn á markaðinn og hyggst hasla sér þar völl leitast auðvitað við að framleiða vörur á verði sem haldið er óeðlilega háu með falskri verðlagningu. Sá mundi síður snúa sér að búvörum sem haldið er á óeðlilega lágu verði með verðtilfærslugjöldunum. Hér er því í raun og veru verið að skekkja eðlilega samkeppni í landinu á þessu sviði með slíkum gjöldum.

Það er von mín að breytingarnar sem eru lagðar til með frumvarpinu stuðli að því að gera framleiðslukerfi mjólkurafurða einfaldara og gagnsærra en frumvarpið er meðal stefnumarka í áætlun landbúnaðarráðuneytisins um einföldun regluverks og stjórnsýslu. Það er mjög í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem kveðið er á um aukið frelsi í landbúnaðarmálum.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.