138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:34]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég hef heyrt rétt. Ég skil hv. þm. Kristján Þór Júlíusson þannig að hann sé að leggja til að frumvarp sem hér er komið til þinglegrar meðferðar verði tekið úr þinglegum farvegi og vísað til nefndar þar sem LÍÚ er hluti af starfshópi. Ég á bara ekki eitt einasta orð.

Að halda því fram að hér hafi verið rofin sátt við útvegsmenn þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram frumvarp í þinginu sem hefur það markmið að auka afla og þar með tekjur inn í íslenskt þjóðarbú. Hér er fimbulfambað um þetta skötuselsákvæði eins og verið sé að skerða starfsskilyrði íslenskrar útgerðar. Skötuselsákvæðið felur í sér hreina viðbót við áður úthlutað aflamark. Með öðrum orðum er verið að bæta við. Gerð er tilraun með að leigja þá viðbót og afla þar með tekna beint í ríkissjóð sem ráðstafað verði til atvinnuuppbyggingar og rannsókna, sem er bara hófleg tillaga og í raun og veru skerðir ekki á nokkurn hátt starfsskilyrði íslenskra útvegsmanna.

Sú var tíðin að fullyrt var að LÍÚ stjórnaði sjávarútvegsráðuneytinu. Ég ætla rétt að vona að sú tíð sé liðin. Sú tillaga að vísa því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram inn í þann starfshóp sem nú er að störfum, sem útvegsmenn hafa reyndar hunsað því þeir mættu ekki á síðasta fund sem var haldinn í þeirri nefnd og ætla þar með sjálfsagt að setja auka þrýsting á stjórnvöld vegna þessa frumvarps, er frekja sem komin er út yfir allan þjófabálk.