149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál.

238. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál. Spurningin hljóðar á þennan veg:

Hyggst ráðherra fylgja eftir stefnu ráðuneytisins sem kom fram í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar árið 2009, um stofnun rannsóknarseturs um utanríkis og öryggismál? Ef svo er, þá hvernig?

Hæstv. ráðherra svaraði svipaðri fyrirspurn hv. þm. Smára McCarthys fyrir ríflega ári síðan. Þá var þjóðaröryggisráðið ekki búið að koma saman. Það er kannski er ágætt að þessi spurning komi beint á eftir umræðunni um öryggis- og varnarmál. Ég tel það mikilvægt í ljósi þeirrar þróunar sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir alveg eins og öll NATO-ríkin. Við þurfum að greina aðstæður betur. Við þurfum að hafa yfirlit yfir hvað er í gangi um leið og við styðjum það eindregið að efla samskipti NATO-ríkjanna við til að mynda Rússland, líka við Kína. Þá getum við ekki sett kíkinn fyrir blinda augað og sagt: Við ætlum ekki að gera neitt annað.

Við þurfum að efla varnir okkar samhliða því að við höldum uppi samskiptum við þau ríki sem ég nefndi áðan, en við þurfum líka að vera vel vakandi gagnvart því hvað gera þarf í öryggis- og varnarmálum. Til þess þurfum við greiningar, til þess þurfum við sérfræðinga sem aðstoða okkur við að halda uppi öryggi þjóðarinnar. Við þurfum að vera í sem víðtækustu samstarfi á alþjóðavísu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að reyna að fylgja eftir þeim megintilgangi sem fram kom í þingsályktuninni á sínum tíma um stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál? Það er alveg ljóst að við höfum mjög víðtæka og mikla þekkingu á nákvæmlega þessum málum, t.d. hjá Alþjóðamálastofnun.

Getur hæstv. ráðherra hugsað sér að leita þangað nú þegar línur eru að skýrast, eða að fara kannski aðrar leiðir til að styrkja fræðastofnanir eins og Alþjóðamálastofnun, hugsanlega aðra háskóla sem einbeita sér að þessu? Hvernig hyggst ráðherra beita sér í þessu máli? Það er gríðarlega mikilvægt að við séum á tánum varðandi það hvernig aðstæður eru í vörnum og öryggismálum landsins hvað þetta snertir.

Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að auka rannsóknir á þessu sviði og fylgja því eftir í þeim anda sem fram kom í þingsályktuninni á sínum tíma?