151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

málefni framhaldsskólans.

[11:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að við getum haft í boði eins mikið staðnám og við mögulega getum á þessum erfiðu tímum. Ég vil einnig upplýsa hv. þingmann um það að í upphafi haustmisserisins byrjuðu framhaldsskólarnir á því að vera með staðnám. Það voru að vísu ákveðin hólf en okkur tókst að halda þessu gangandi þar til að það þurfti því miður að herða sóttvarnaráðstafanir, vegna þess að við erum að kljást við sameiginlegan óvin sem er veira. Ef ég gæti breytt öllu í dag myndi ég breyta því að þessi veira væri ekki þarna og allt unga fólkið okkar væri að stunda nám. En það er bara því miður ekki svo.

Ég vil nefna nokkra þætti sem við fórum í og hvernig við höfum verið að vinna þetta. Við forgangsröðuðum í þágu þeirra sem eru á fyrsta ári í framhaldsskóla. Þau voru í meira staðnámi en aðrir. Það var hluti af þeirri áætlun sem við fórum í. Í annan stað þá forgangsröðuðum við líka í þágu þeirra sem voru í verknámi og voru í listnámi og margir af þeim nemendum hafa getað verið í sínum framhaldsskólum allan tímann. Í þriðja lagi erum við að auka stoðþjónustu. Mig langar að nefna, af því að hv. þingmaður hefur skiljanlega áhyggjur af líðan ungmenna og það hef ég svo sannarlega líka, að við höfum verið að auka stoðþjónusta og það er aukin sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum, líka á heilsugæslunni, og svo hefur líka verið boðið upp á fjarþjónustu, það er samningur sem við gerðum nýverið.