151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að það sé fyrst skýrt þá erum við að tala um að ná 85% jöfnun strax árið 2021. Það kallar á frekari fjármuni að jafna það um 100% strax á næsta ári og þess vegna förum við þessa blönduðu leið, verðlagshækkun á gjaldinu og 600 nýjar milljónir á fjárlögum til viðbótar við þann milljarð sem jöfnunargjaldið skilar okkur í dag. Við höfum fengið Deloitte til að vinna fyrir okkur ákveðna greiningu á nokkrum þáttum og þar inni er bæði það sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi Landsnet en sömuleiðis varðandi nánari leiðir til að tryggja jöfnun dreifikostnaðar og skoða mögulega sameiningu dreifiveitna í því skyni, og þeirrar niðurstöðu er að vænta strax í janúar.

Ég er með á þingmálaskrá frumvarp til breytinga á raforkulögum sem ég hyggst leggja fram á vorþingi til að þær tillögur sem komu út úr vinnunni með Deloitte geti skilað sér inn í það frumvarp. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að skoða megi það mjög alvarlega hvort við þurfum fimm dreifiveitur á Íslandi, í starfsemi sem er sérleyfisskyld og engin samkeppni ríkir, eða hvort þær megi einfaldlega vera færri svo að ákveðin hagræðing náist sem og þau atriði sem því fylgja. Það er auðvitað líka eitthvað sem við ættum að geta skoðað mjög alvarlega.

Hvað varðar hækkunaráform Landsnets þá er það til skoðunar hjá Orkustofnun og það er hið lögbundna ferli. Orkustofnun fær sex vikur til að fara yfir það og tryggja að næg gögn séu til staðar. Á meðan það er þá er ég ekki hér til að hafa skoðun á því, þannig eru lögin núna. Spurt er hvort við getum gert einhverjar frekari kerfisbreytingar til að stuðla frekar að því að þessar hækkanir þurfi ekki að koma til en þær skila sér að sjálfsögðu út til fyrirtækja (Forseti hringir.) sem hafa verið í betri aðstæðum til að taka við þeim en nú er. En breyta þarf lögum til þess að gera það og í þeirri vinnu erum við.