Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

lyfsala utan apóteka.

174. mál
[17:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu. Ég skal alveg vera skýr í svari gagnvart afstöðu minni. Ég fór yfir það í fyrra svari að virða álit velferðarnefndar þingsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga þegar við tölum um lýðheilsu að til að mynda parasetamóleitranir eru ein algengasta ástæða bráðrar lifrarbilunar á Vesturlöndum. Hér á landi voru 542 slíkar eitranir á árunum 2010–2017. Það er rétt sem hv. þm. Logi Einarsson kom inn á, að bæði tíminn og kannski umfangið gefur ekki tilefni til að draga neinar ályktanir af því að þarna sé einhver viðbót sem er hægt að tengja saman við þessa aukningu sem hefur orðið í símtölum vegna rangrar lyfjagjafar en það kemur fram í ársskýrslu Eitrunarmiðstöðvarinnar frá árinu 2021 að aukningin þar er úr 34% í 47% sem rekja má til rangrar lyfjagjafar og til lausasölulyfja. Það kemur fram í ársskýrslunum að um 13% símtala voru vegna lyfjaeitrunar vegna lyfja sem selja má í lausasölu, þ.e. bólgueyðandi verkjalyfja og parasetamóllyfja. Ég held að þarna verðum við alltaf að hafa í huga lýðheilsuna þegar við stígum þessi skref vegna þess að þetta er alvarlegt mál. Hins vegar vegur á móti aðgengisþátturinn og ég held að við höfum valið ágæta leið. Ég held að þingið hafi komist að ágætri niðurstöðu og velferðarnefndin á sínum tíma. En þetta má auðvitað ræða með aðkomu sérfræðinga um þetta málefni. En þarna vegur alltaf lýðheilsan og aðgengið og ég held að við gerum það best með að horfa þannig á málið.