Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

þjónusta við þolendur ofbeldis.

267. mál
[17:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir að koma hingað og svara fyrirspurn minni um þjónustu við þolendur ofbeldis. Það er mikilvægt að við sem samfélag stöndum vel að þjónustu við þolendur ofbeldis og þolendur þurfa og eiga að geta fengið alla þá aðstoð sem þeir þurfa til að koma undir sig fótunum eftir það áfall sem fylgir því að verða fyrir heimilis- eða kynferðisofbeldi.

Því langar mig að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hver framtíðarsýn hans sé um þjónustu við þolendur ofbeldis og stuðning við þar tengd félagasamtök. Í því samhengi hef ég einnig áhuga á að vita hvort ráðherra hafi í huga að auka stuðning við þolendur ofbeldis og hvort ráðherra telji tilefni til að sveitarfélögin stígi þar inn sömuleiðis.

Við eigum í dag góð úrræði en þolendamiðstöðvarnar hafa nú þegar sýnt mikilvægi sitt í íslensku samfélagi og reynst þolendum vel. Hjá þolendamiðstöðvum hafa þolendur fengið leiðbeiningar og styrk til að takast á við þau erfiðu verkefni sem fram undan eru eftir að hafa orðið fyrir kynferðis- eða heimilisofbeldi. Þar má nefna þjónustumiðstöðvar eins og Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Selfossi, en Sigurhæðir hafa stigið enn stærra skref í þá átt að bjóða upp á félagslega og sálræna meðferð sem hefur reynst einstaklega vel og er félagsþjónustan víða á Suðurlandi farin að senda fólk beint til Sigurhæða því þar er styttri bið en í heilbrigðiskerfinu. Þetta er þolendum að kostnaðarlausu og er mikilvægt að svo verði áfram. En svo þær geti starfað er mikilvægt að tryggja þeim góðan rekstrargrundvöll og því spyr ég: Hefur ráðherra í hyggju að gera langtímasamninga við þær þolendamiðstöðvar sem sinna þessari mikilvægu þjónustu?

Það er því miður staðreynd að börn á Íslandi verða fyrir ofbeldi og ofbeldi markar börn til framtíðar. Þá hefur heimilisofbeldi einnig veruleg áhrif á börn en sagt er í fræðum að líkja megi aðstæðum barna sem búa við heimilisofbeldi við aðstæður þeirra barna sem búa við stríð. Ég held að allir hér inni séu sammála um að veita börnum sem besta þjónustu og í því samhengi vil ég spyrja: Hvað telur ráðherra að við þurfum að gera til að bæta þjónustu við börn sem búa við eða hafa búið við heimilisofbeldi?