Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

þjónusta við þolendur ofbeldis.

267. mál
[17:56]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn og fagna því að við séum að taka þessi mál til umræðu hér í þingsal.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur stutt við þolendur ofbeldis með fjárframlögum til félagasamtaka sem veita þjónustu við þolendur ofbeldis. Ráðuneytið hefur líka verið að fylgja eftir aðgerðum í þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, sem miða að því að veita stuðning til þolenda ofbeldis. Það er hins vegar orðið tímabært að mótuð verði stefna um heildstæða og samræmda þjónustu til þolenda ofbeldis um land allt og þá hvaða aðilar skuli hafa aðkomu að þeirri þjónustu. Við erum um þessar mundir einmitt að taka skref í þessa átt, einkum með tilliti til skuldbindinga okkar gagnvart Istanbúl-samningnum, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, en eitt af meginmarkmiðum samningsins er að stjórnvöld setji sér heildarramma, stefnu og ráðstafanir til að vernda og aðstoða alla þolendur ofbeldis og heimilisofbeldis með áherslu á samstarf þeirra aðila sem koma að málaflokknum.

Í dag höfum við hvorki lög né reglugerðir til að tryggja vernd og stuðning við þolendur ofbeldis og ekki heldur úrræði fyrir gerendur til að koma í veg fyrir ofbeldi sem byggjast á lögum og eru því í samræmi við samninginn. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er markmiðið að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Ofbeldi ógnar fjárhagslegu og félagslegu öryggi þeirra sem fyrir því verða og þrátt fyrir það er ekki fjallað sérstaklega um skyldur sveitarfélaga í lögunum til að veita þolendum nauðsynlega þjónustu vegna ofbeldis, ólíkt því sem finna má í nágrannalöndum okkar. Ég mun á næstu dögum skipa starfshóp sem verður falið það hlutverk að taka til skoðunar hvernig hátta megi laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu við þolendur ofbeldis. Starfshópurinn mun skila tillögum í vor sem unnar verða að höfðu víðtæku samráði við aðila sem starfa innan þessa málaflokks. Í framhaldi af þessari vinnu vænti ég þess að hægt verði að móta skýra framtíðarsýn þegar kemur að þessum málaflokki sem tryggir þolendum ofbeldis vernd, stuðning og öryggi, þar með talið mögulega lögbundna aðkomu sveitarfélaga.

Varðandi þolendamiðstöðvarnar erum við með þrjár slíkar hér á landi sem starfa eftir, með leyfi forseta, „Family Justice Center“-módelinu þar sem markmiðið er að þolendum ofbeldis sé veitt öll sú þjónusta sem á þarf að halda á einum stað. Þetta er Bjarkarhlíð á höfuðborgarsvæðinu, Bjarmahlíð á Norðurlandi, Sigurhæðir á Suðurlandi og stjórnvöld eru helstu fjárhagslegu bakhjarlar þessara þolendamiðstöðva. Það er þegar komin reynsla á starfsemi miðstöðvanna og þykir þess vegna tímabært að móta stefnu um aðkomu stjórnvalda, lögregluembætta, sveitarfélaga og annarra að áðurnefndum þolendamiðstöðvum í þeim tilgangi að efla þær og styrkja. Í samvinnu dómsmálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis erum við að fara að vinna greiningu á núverandi stöðu miðstöðvanna með tillögum um framtíðarfyrirkomulag varðandi aðkomu ráðuneyta, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka að rekstri þeirra út frá fyrrgreindri hugmyndafræði. Markmiðin með þessari greiningu eru einkum að skýra ábyrgð ráðuneyta, lögreglunnar og sveitarfélaga, sem bera þá ábyrgð á félagsþjónustunni, og þeirra félagasamtaka sem eiga aðild að þolendamiðstöðvum. Markmiðið með greiningunni er líka að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri til frekari þróunar þolendamiðstöðvanna, svo sem aukið þjónustuframboð, víðtækara samstarf, mögulega aðkomu fleiri aðila að starfseminni og þar fram eftir götunum. Í þriðja lagi er markmið greiningarinnar að meta aðgengi að þjónustunni. Við gerum þá ráð fyrir að greiningar þessar liggi fyrir í lok árs og vonumst til að þær nýtist okkur við að móta bæði framtíðar- og rekstrarfyrirkomulag þolendamiðstöðva. Að mínu mati er því ekki tímabært á þessum tímapunkti að tekin sé ákvörðun um langtímasamninga ráðuneytisins við þolendamiðstöðvarnar. Bíðum eftir þessum greiningum og fáum lagarammann á hreint, en við munum áfram styðja við þær með fjárframlögum eins og gert hefur verið.

Virðulegi forseti. Varðandi gerendur ofbeldis og það að koma í veg fyrir ofbeldi þá vil ég segja að gerendur er hópur sem þarf virkilega að huga að til að draga úr líkum á frekara ofbeldi. Sú staðreynd er orðin viðurkenndari í samfélaginu í dag en hún var ekki fyrir svo löngu. Við í ráðuneytinu höfum lengi stutt við meðferðarúrræðið Heimilisfrið sem veitir sálfræðimeðferð fyrir gerendur ofbeldis og nýtt úrræði, Taktu skrefið, var nýlega sett á laggirnar með stuðningi ráðuneytisins. Þar er um að ræða úrræði fyrir fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi og getur fengið aðstoð sérfræðinga á þessu sviði til að fá hjálp. En við þurfum líka í þessu samhengi að leggja mun meiri áherslu á forvarnir og koma þannig í veg fyrir að fólk verði gerendur og hyggst ráðuneytið á næstunni styðja við fleiri slík verkefni.