154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

eftirlit með störfum lögreglu.

[10:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra um að svara spurningu minni sem sneri ekki að frumvarpinu sem hæstv. ráðherra ætlar að leggja fram heldur ástandi sem nú þegar er í gangi og er búið að vera í gangi í mörg ár, sem er að lögreglan hlítir ekki því eftirliti sem hún á nú þegar að sæta samkvæmt lögum sem er nú þegar búið að setja, lögum sem voru sett 2016 um að ríkissaksóknari hafi eftirlit með hlerunaraðagerðum lögreglu, að ríkissaksóknari gefi lögreglu fyrirmæli um hvernig halda eigi utan um gögn tengd hlerunum og öðrum eftirlitsaðgerðum. Þessum eftirlitsskyldum hefur ríkissaksóknari ekki getað sinnt. Hún hefur sent dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem hún hefur bent á þetta, 2017. Hún hefur gefið út opinberar skýrslur 2017, 2018, 2019, 2020 2021, þar sem hún harmar það að lögreglan undirgangist ekki það eftirlit sem henni ber lögum samkvæmt að hlíta. Hvernig eigum við að gefa lögreglunni frekari heimildir til eftirlits með borgurunum (Forseti hringir.) ef hún neitar að verða við því litla eftirliti sem hún á nú þegar að sæta? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í því að lögreglan (Forseti hringir.) neitar að undirgangast það litla eftirlit sem hún á að sæta (Forseti hringir.) og virðir fyrirmæli ríkissaksóknara að vettugi?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)