154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú eru liðinn rétt mánuður síðan yfirstandandi lota í átökum Ísraels og Palestínu hófst og sá hildarleikur sem nú fer fram er bæði ofsafenginn og hryllilegur. Við fylgjumst með einhverjum harkalegustu árásum sem hafa átt sér stað fyrir botni Miðjarðarhafsins þar sem engin virðing er borin fyrir mannslífum. Flest okkar hér, sem erum svo heppin að búa við frið og öryggi, finna auðvitað til vanmáttar og máttleysis þegar við fylgjumst með fréttaflutningi af atburðunum, enda hefur António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, líkt Gaza-ströndinni við barnagrafreit. Rúmlega 4.000 börn hafa verið drepin síðastliðinn mánuð, enn fleiri hafa særst og rúmlega 1.000 barna er saknað og talin grafin í rústum húsa. Fleiri blaðamenn hafa verið drepnir á þessu fjögurra vikna tímabili en í nokkrum öðrum átökum í a.m.k. 30 ár og fleiri hjálparstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa verið drepnir á jafn löngum tíma en nokkru sinni fyrr í sögunni, enda hafa allar helstu stofnanir Sameinuðu þjóðanna kallað eftir tafarlausu vopnahléi. Það hefur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna einnig gert og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Undir þá kröfu, um tafarlaust vopnahlé á mannúðarástæðum, tökum við á Alþingi hér í dag.

Þótt blóðbaðið hafi staðið yfir í heilan mánuð hafa landsmenn og umheimurinn verið í talsverðri þoku varðandi afstöðu ríkisstjórnar Íslands. Þannig sat Ísland hjá í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þegar greitt var atkvæði um tillögu Jórdaníu. Utanríkisráðherra mætti í fréttir strax í kjölfarið og varði þessa ákvörðun. Skömmu síðar ályktaði þingflokkur forsætisráðherra um stuðning við ályktunina og hæstv. forsætisráðherra ítrekaði sérstaklega þá afstöðu sína. Er nema von að fólk átti sig ekki algerlega á hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessu hryllilega máli?

Það má margt segja um hjásetu Íslands og viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra í kjölfarið. Hann bar því við að ekki hefði verið hægt að styðja tillöguna eftir að tillaga Kanada um að fordæma hryðjuverkaárás Hamas í upphafi var felld. Í fyrsta lagi höfðu íslensk stjórnvöld þá þegar fordæmt hryllilegar hryðjuverkaárásir Hamas. Í öðru lagi eru öll þau atriði sem Kanada nefndi í ályktuninni fordæmd í ályktun Jórdaníu, þótt orðið Hamas sé vissulega ekki nefnt, bæði hryðjuverkaárásin hryllilega og gíslatökurnar en einnig krafan um að gíslunum verði tafarlaust sleppt og þeir meðhöndlaðir á mannúðlegan hátt á meðan þeir eru í haldi. Í þriðja lagi, og kannski það sem skiptir allra mestu máli, þá er einfaldlega gagnrýnisvert að sitja hjá af tæknilegum ástæðum á sama tíma og þúsundir óbreyttra borgara og barna hafa verið drepin. Forsætisráðherra er því sammála og þjóðin er það líka.

Herra forseti. Æðstu ráðamenn íslensku þjóðarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, hafa hingað til ekki enn talað fullkomlega einum rómi, enda sagði hæstv. utanríkisráðherra að það væri óheppilegt. Þess vegna er það ánægjulegt og var í rauninni algjörlega nauðsynlegt að utanríkismálanefnd tæki í taumana og næði saman um skýra ályktun til umheimsins. Fulltrúar allra flokka á þingi standa að þessari ályktun og þannig verður hún vafalaust samþykkt hér í dag. Þá er það krafa Alþingis að íslensk stjórnvöld, sem sitja í skjóli Alþingis, geri hana tafarlaust að sinni og álykti strax á sama veg.

Herra forseti. Ég ætla ekkert að tíunda tillöguna, hún liggur hér frammi og á netinu, en hún felur þó í sér eftirfarandi hluti: Að kallað verði eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum, að hryðjuverk Hamas, sem hófust 7. október, verði fordæmd og að Alþingi fordæmi jafnframt allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar. Loks felum við Alþingi einnig að veita viðbótarframlög til mannúðaraðstoðar þótt vissulega sé allt tal um nokkrar krónur mjög fátæklegt þegar við stöndum andspænis atburðum þar sem hundruð barna eru drepin á hverjum degi — einn meðalstór grunnskóli til að setja hlutina í hryllilegt samhengi.

Herra forseti. Að lokum má spyrja hvert hlutverk smáþjóðar eins og Íslands er þegar kemur að lausn hildarleiks eins og á sér stað núna í Palestínu og Ísrael. Við erum herlaus þjóð og fjárframlög okkar duga vissulega skammt í samanburði við framlög margra annarra þjóða, en við höfum rödd og okkur ber að nota þessa rödd. Ísland þarf þess vegna að tala skýrri röddu á alþjóðavettvangi og við eigum alltaf að tala fyrir friði. Ísland var meðal þeirra þjóða sem samþykktu stofnun Ísraelsríkis og við vorum einnig meðal fyrstu þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Við höfum talað fyrir varanlegum friði á svæðinu og við höfum talað fyrir tveggja ríkja lausn. Krafa þingsins er að íslensk stjórnvöld tjái sig ávallt í samræmi við það og með afgerandi hætti en síðast en ekki síst á þann hátt að ekki leiki minnsti vafi á að við unum því ekki að saklausum borgurum sé slátrað í mjög óljósri og miskunnarlausri vegferð.

Herra forseti. Rödd Alþingis í þessu máli er skýr. Það þarf að stöðva þessa vitfirringu. Við krefjumst vopnahlés af mannúðarástæðum tafarlaust. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)