136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-deilan við ESB.

[15:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er eingöngu að reyna að fá á hreint, ég held að það sé ekki seinna vænna, hver sé heildarverðmiðinn. Að sjálfsögðu liggja mismunandi forsendur að baki þessum stóru tölum en þær eru gígantískar. Ég hef heyrt tölurnar 600–640 milljarða kr. brúttó vegna Icesave-deilunnar og 6 milljarðar bandaríkjadollara reiknaðir út frá meðalgengi Seðlabankans í dag eru um 810 milljarðar, þannig að eins og ég lærði stærðfræði eru þetta um 1.450 milljarðar brúttó.

Að þetta hafi verið kynnt á föstudaginn og tekið síðan breytingum kemur mér spánskt fyrir sjónir miðað við að byrjað var að kynna þetta fyrir gagnaðilanum fyrir helgi. Ég held að enn þá sé margt óljóst um hvernig ríkisstjórnin hefur unnið að þessum hlutum.

Ég er með álit og greinargerðir a.m.k. fjögurra eða fimm lögfræðinga í höndunum sem draga mjög í efa að ábyrgðir okkar séu umfram þau lög og þann innlánstryggingasjóð sem við höfum stofnað á grundvelli tilskipana frá Evrópusambandinu. Við erum að afsala okkur réttinum á því að láta reyna á þann grunn málsins eftir því sem ég skil þessa yfirlýsingu. Varðandi upplýsingagjöf til Alþingis (Forseti hringir.) hlýt ég að líta svo á að hæstv. forsætisráðherra telji fullnægjandi að helstu heimildir Alþingis Íslendinga og þjóðarinnar um það sem gerist hjá ríkisstjórn Íslands séu baksíðuleiðarar Financial (Forseti hringir.) Times.