142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skerpa enn betur á skilningi okkar á því hver þau viðfangsefni eru sem hér blasa við. Ég deili því með honum að það truflar að þurfa að taka ákvarðanir sem þessar. Það er auðveldara að vera pistlahöfundur eða starfandi úti í bæ og hafa skoðanir á þessu en að standa frammi fyrir viðfangsefninu og þurfa að vera sá eða sú sem takmarkar þetta frelsi og skilgreinir hvort hagsmunirnir eru réttlætanlegir eða nægjanlegir í hvert skipti.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar hvað varðar óskina eftir almennri umræðu, af þeirri reynslu sem ég þó hef af því að sýsla í pólitík, að hún verður yfirleitt ekki til nema á grundvelli einhvers gefins tilviks eða tilefnis. Hér erum við akkúrat á þeim stað að hafa tækifæri til að ræða þessi grundvallaratriði og þess vegna enn og aftur tel ég mjög mikilvægt að við nýtum það tækifæri og þann vilja sem er fyrir hendi til að ná sömu markmiðum með meðalhóf að leiðarljósi án þess að við göngum með svo afgerandi og skýrum hætti á persónufrelsið, eins og kemur fram í umsögnum Persónuverndar og fleiri aðila.

Kjarni málsins sem hv. þingmaður nefnir hér er: Er verjandi að skilgreina pólitísk markmið sem almannahagsmuni? Þá væri alltaf allt undir og þar með yrði bókstafurinn einskis virði. Það er minn skilningur á útlistun hv. þingmanns og ég vil spyrja hann hvort sá skilningur sé réttur.