148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að ræða um fiskvinnslu og útgerð í hinum minni byggðum og lítil og meðalstór fyrirtæki. Veiðigjöldin hafa verið til umræðu í atvinnuveganefnd frá því í janúar. Við höfum fengið til okkar fjölda gesta til að fara yfir þau mál. Í undirbúningi í ráðuneytinu er endurskoðun á veiðigjöldum. Það eru miklar áhyggjur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og sveitarfélögum þar sem sú vinnsla og sú útgerð er uppistaðan í atvinnu, að margir gefist upp og hætti og það verði áframhaldandi samþjöppun.

Við höfum líka fengið til okkar fulltrúa frá fiskmörkuðum sem hafa áhyggjur því að það eru þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki sem halda fiskmörkuðum gangandi. Það væri svipur hjá sjón ef ekki væru fiskmarkaðir hér í landi.

Þetta getur gerst mjög hratt. Við verðum að horfast í augu við það og bregðast við. Það þolir engin lítil útgerð að veiðigjöldin hækki um 200–300% eins og verið hefur, það er veruleikinn. Það þarf að bregðast við því.

Við horfum upp á fyrirtæki loka eins og í fyrra, HB Granda á Akranesi, Frostfisk í Þorlákshöfn. Þar voru 50 störf sem hurfu og eru komin til Hafnarfjarðar. Ég var nú viðstödd þann ánægjulega atburð að Ísfiskur var að opna í síðustu viku í húsnæði HB Granda á Akranesi. Það er mjög ánægjulegt þegar fyrirtæki hafa kjark til þess að fara í útrás út frá höfuðborgarsvæðinu til staða eins og Akraness sem hefur verið þekktur útgerðarbær og þekktur fyrir öfluga fiskvinnslu. Það er eitthvað skrítið ef fiskvinnsla og útgerð þrífast ekki á Akranesi. Þá er líka eitthvað að leikreglunum sem við þurfum að skoða hér á Alþingi. Það er mjög gott að þær mörgu fiskvinnslukonur, fyrst og fremst, sem voru farnar að sækja vinnu hér á höfuðborgarsvæðinu geti nú stundað vinnu á Akranesi. Voru þær vitaskuld mjög ánægðar með það.