154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseta. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir spurninguna því að þetta er aðeins flókið, bara svo það sé sagt. Vissulega var boðað frumvarp um Hjalteyrarbörn. Þau hafa ekki fengið neinar bætur greiddar, bara svo því sé haldið til haga, því að ekkert frumvarp hefur komið fram. Það má eiginlega segja að þetta frumvarp sé atlaga að því að reyna að smíða ramma sem rúmar öll þau sem kynnu að vilja leita sanngirnisbóta í gegnum í raun og veru eitt hlið. Í tilfelli Laugalands og Varpholts var sú skýrsla unnin af félagsmálaráðuneytinu á sínum tíma. Hjalteyrarbörnin leituðu til dómsmálaráðuneytis sem þessi málaflokkur heyrir undir í dag, hann var áður undir forsætisráðuneyti og ég mælti fyrir því frumvarpi sem ég fór yfir hér áðan um meðferð fatlaðra barna. Í stuttu máli sagt vil ég bara segja að það er mitt mat að við þurfum að koma þessum málum betur fyrir í stjórnkerfinu. Til þess tel ég skynsamlegast — eftir langa umhugsun, ég var ekki sannfærð við fyrsta yfirlit en ég vona að Alþingi snúist líka á þá sveif við skoðun á málinu — að hafa einn slíkan ramma með öflugu fagfólki sem meti þetta. Í sumum tilfellum liggja fyrir skýrslur, rannsóknir, í öðrum ekki. Þessar rannsóknir eru mismunandi gerðar, rannsóknin eða skýrslan sem liggur fyrir um Laugaland og Varpholt er ekki unnin í gegnum rannsóknarnefnd Alþingis heldur af Gæða- og eftirlitsstofnuninni. Hugsunin er sú að öll þessi mál fari sambærilega leið.

Ég skil alveg spurningu hv. þingmanns sem nefnir hér upphæðir. Í Noregi er hámarksupphæð í íslenskum gjaldmiðli 3 millj. kr. Það var upphaflega tillagan sem ég setti fram. Ég hækkaði hana í 5 eftir umsagnir í samráðsgátt. Við getum lengi deilt um það hvernig við tryggjum jafnræði og sanngirni afturvirkt í þessu, ég held að það sé flókið, en frumvarpið er atlaga að því að það verði til rammi sem tryggi það.