142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að blanda mér lítillega í umræðuna. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér í upphafi, við þurfum að ræða um persónuvernd, persónufrelsi og friðhelgi einkalífsins og reyna að velta því fyrir okkur hvort við séum yfir höfuð á réttri leið burt séð frá þessu ágæta frumvarpi.

Það var nefnilega þannig að mikilvægt var og þótti mikilvægt að ákveðið jafnvægi ríkti, hagsmunir ríkisvaldsins, persónuvernd og frelsi einstaklinga. Tilhneigingin er alltaf sú að ríkisvaldið seilist lengra og lengra vegna þess að löggjafinn sjálfur metur hvað eru almannahagsmunir. Og það er vandamálið sem við erum að glíma við akkúrat í þessu frumvarpi. Eru slíkir almannahagsmunir undir að réttlætanlegt sé að samþykkja það? Um það snýst þetta mál í raun og veru.

Við erum alltaf að glíma við sama vandamálið. Bandaríkjamenn eru að glíma við þetta sama vandamál, af því að verið var að tala hér um Snowden og þjóðaröryggisráðið þar. Af hverju eru Bandaríkjamenn að gera þetta? Vegna þess að þeir meta það sjálfir að í baráttunni gegn hryðjuverkum þurfi að hafa þessa takmörkun á friðhelgi. Ég er alveg viss um að Stasi í Austur-Þýskalandi mat það þannig á sínum tíma. Til þess að halda uppi sínu sósíalíska ríki þá þurftu þeir að gera það. Menn voru alltaf að meta þetta.

Við þurfum að velta því fyrir okkur sjálf bara almennt hvort við séum að ganga allt of, allt of langt í öllu þessu. Þegar ég var að bera þetta saman við annað sem hefur gerst — vegna þess að ég upplifi það þannig að þessa almannahagsmuni metum við eftir pólitískum skoðunum okkar, við erum ekki að hugsa um þetta út frá neinu öðru. Ég hef oft hugsað um það að tekin er mynd af manni þegar maður fer yfir gatnamót eða keyrir aðeins of hratt. Það er tekin mynd inn í bílinn minn, það er ansi mikið brot á friðhelginni. Að vísu eru þetta bestu myndir sem hafa verið teknar af mér [Hlátur í þingsal.] en þetta er svoleiðis. Og við þurfum að velta þessu fyrir okkur — bíddu, það er allt í lagi, ég meina, við erum að vernda þá almannahagsmuni að menn keyri ekki of hratt. Við erum alltaf að meta þetta. Ég bið því menn bara að velta þessu fyrir sér.

Ég held að ef þingið metur það þannig að frumvarpið sé nauðsynlegt til að bæta hag stórs hluta þjóðarinnar, sem er mikilvægt til að heimilin standi undir sér, það er mjög mikilvægt fyrir okkar samfélag, þá geta menn komist að því að það sé í lagi að takmarka friðhelgina og persónuverndina með þessu frumvarpi.