154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

64. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson og Óli Björn Kárason.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að setja upp að nýju skjaldarmerki sem prýddu framhlið Alþingishússins á vígsludegi þess 1. júlí 1881.

Í greinargerð segir:

Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi (43. mál) og 152. löggjafarþingi (502. mál). Með tillögunni er lagt til að skjaldarmerkin sem prýddu Alþingishúsið allt þar til þau voru fjarlægð 1904 verði sett upp að nýju. Um er að ræða tvö skjaldarmerki, annars vegar skjaldarmerki handhafa valds á Íslandi frá fyrri öldum, krýndur útflattur þorskur á rauðum skildi, hins vegar skjaldarmerki Danmerkur, þrjú krýnd ljón. Markmiðið með tillögunni er að færa framhlið Alþingishússins í upprunalegt horf og þar með halda í heiðri eigin sögu, sem mikilvægt er og skylt að varðveita.

Endurbætur á Alþingishúsinu á umliðnum árum hafa miðast að því að húsið sé sem næst í upphaflegu horfi frá því að það var reist 1881. Þessi tillaga miðar að sama marki. Komandi kynslóðir eiga rétt á því að þekkja söguna og þau mannvirki og kennileiti sem bera henni vitni, þar á meðal Alþingishúsið í upprunalegri mynd. Þessari tillögu fylgir teikning af Alþingishúsinu þegar umrædd skjaldarmerki voru á því og hana er hægt að sjá á netinu á vef Alþingis.

Alþingishúsið er eins og við vitum eitt af mikilvægustu mannvirkjunum á Íslandi. Þetta er fallegt hús og því fylgir mikil saga, innan dyra jafnt sem utan. Húsið er byggt úr höggnum grásteini og eru raðir steinanna telgdar til en miðfóturinn á steininum látinn vera hrufóttur. Margir danskir steinhöggvarar unnu að byggingu hússins. Íslendingar lærðu við framkvæmdina að höggva grjót og fylgdu því fleiri steinhöggvin hús í framhaldinu.

Alþingishúsið er í raun höll á íslenskan mælikvarða. Þangað mænir vonin öll, eins og greinir frá í Alþingisrímunum. Hvað ætli marga Íslendinga dreymi um að komast þangað til áhrifa og valds? Svo mælti Helgi Sæmundsson árið 1967, sett fram hér til gamans.

Þetta er tillaga sem fer ekki mikið fyrir. En, herra forseti, ég tel að hún sé mikilvæg að því leytinu til að færa húsið í alveg upprunalegt horf. Mér hefur verið tjáð af fyrrum þjóðminjaverði Þjóðminjasafns Íslands að þessi skjaldarmerki sem voru á húsinu en voru fjarlægð árið 1904 séu til og því er ekki mikið til fyrirstöðu og fylgir því lítill kostnaður að setja þau upp aftur. Það held ég að verði bara til prýði.

Að þessu sögðu, herra forseti, vísa ég málinu til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar.