135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:35]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir að koma inn á forsendurnar fyrir efnahagsmálunum sem fjármálaráðuneytið hefur unnið eftir. Ég tek undir það með honum að þær forsendur eru ekki aðeins grundvöllur fyrir spá og áætlanagerð fjármálaráðuneytisins heldur og einnig þær sem aðrar greiningardeildir notast við þegar þær gera spár, svona grunnforsendur. Það vantar mikið upp á að þær séu unnar eins trúverðuglega og kostur er. Hv. þingmaður nefndi dæmi um hagvöxt í ár, sem er enn í byrjun nóvember, í áætlun fjármálaráðuneytisins 0,7% en er kannski nálægt 4% í raun. Það þarf því mikið að taka sig á í þessum efnum.

Hann vék að stöðu ríkissjóðs og mikilli mismunun gagnvart ýmsum sveitarfélögum. Nú sér þess ekki beinan stað í raun, ekki með sama hætti og ég vildi sjá, hvorki í þessu fjáraukalagafrumvarpi né í tillögum meiri hlutans hér við 2. umr., að komið sé afdráttarlaust til móts við þau sveitarfélög sem líða verulega af fjárskorti vegna þrenginga í atvinnumálum, þrenginga sem m.a. eru til komnar vegna stjórnvaldsaðgerða.

Atvinnumálum hefur verið stýrt þannig vegna þess að þenslan er svo gífurleg og gengið svo óhagstætt frumatvinnuvegunum, að vextirnir eru himinháir. Þar með lenda sveitarfélögin (Forseti hringir.) sem verst standa í miklum hremmingum. Ég sé ekki að á þeirra málum sé tekið með fullnægjandi hætti.