135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:02]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi andsvarsins biðja herra forseta forláts á fyrra andsvari mínu við ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ég hélt um tíma að gerðar væru athugasemdir við efni andsvarsins en beindi orðum mínum til hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem mér bar ekki að gera í andsvarinu.

En nú beini ég orðum mínum til hv. þm. Þuríðar Backman og þakka henni fyrir ágætisræðu. Hún skiptist eiginlega í tvo kafla. Hún vék svolítið að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga og síðan um einstaka liði í fjárlögunum, þá sérstaklega heilbrigðisstofnanir og þá liði sem falla undir heilbrigðisráðuneytið.

Ég vil sérstaklega víkja að hinu fyrra. Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. Þuríður Backman talaði fyrir því, líkt eins og ég hef gert og fleiri fjárlaganefndarmenn, að við ættum að fara samhent í það verkefni að breyta vinnunni við fjárlagagerðina og því sjálfstæða hlutverki sem fjárlaganefndin hefur við eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Vinstri grænir koma í það verkefni með okkur hinum líkt eins og ég hef kynnt í ræðum varðandi fjárlögin og fjáraukalögin og í umræðum tengdum skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í sumar varðandi framkvæmd fjárlaga.