148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[13:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sat í hv. umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili. Vissulega var búið að senda málið til umsagnar og fá umsagnir, en málið var ekki tekið fyrir í nefndinni, þannig að það væri farið að ræða það. Miðað við allan þann fjölda umsagna sem barst er augljóst að það þarf tíma til að rýna í þær og það er nýtt fólk í nefndinni. Við erum nú einu sinni að tala um lýðræði sem á ekki að vera einhvern veginn hrist fram úr erminni.

Hv. þingmaður svaraði í raun engu minni spurningu. Hann talaði um að sveitarfélögunum væri í sjálfsvald sett hvort þau gerðu þetta. Þeim var líka í sjálfsvald sett hvort þau tækju þátt í samráðinu við ríkisvaldið um þessa miklu endurskoðun sem fór fram fyrir nokkrum árum. Þau kusu að gera það og voru sátt við niðurstöðu þeirrar vinnu. Hún var unnin í samráði ríkisvalds og sveitarstjórnarvaldsins. Ég verð að segja að mér finnst ekki mjög vönduð vinnubrögð að ætla svo að koma og samþykkja grundvallarbreytingu á því. (Forseti hringir.) Væri ekki ráð að vanda betur til verka, taka jafnvel málið í nefnd núna, en taka bara afstöðu til þess í haust?