152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[14:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að vekja sérstaka athygli á kafla 8.2 Stuðningur við ytri nefndarmenn í þessari skýrslu. Gæðaeftirlit er eitt af helstu áhugamálum mínum hvað varðar íslenska stjórnsýslu og bara pólitík í heild sinni. Gæðaeftirlit er tvenns konar svona almennt séð; innra gæðaeftirlit og ytra gæðaeftirlit. Innra gæðaeftirlit snýst um að ferlar séu skjalfestir, að það sé skýrt, þegar erindi berast, hver tekur ábyrgð og heldur vinnunni áfram og þegar eitthvað er gert sé gerð grein fyrir því á réttan hátt o.s.frv. Þetta þarf að vera skýrt til þess að þeir sem koma utan að, eru óháðir, geti komið inn eftir á og vottað að allt sé vel gert, að ekki sé verið að veita bitlinga fram og til baka eða fúska með eitthvað af því að eitthvað var ófyrirsjáanlegt eða eitthvað svoleiðis, þ.e. að þegar eitthvað ófyrirsjáanlegt kemur upp þá sé það sett í rétt ákvarðanaferli og rétt gæðaferli.

Ég ætla að fara aðeins yfir textann í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Ytri nefndarmenn sem skipaðir eru af ráðherra sinna sínu starfi væntanlega í flestum tilvikum sem auka- eða hliðarstarfi. Af stöðu þeirra leiðir að ytri nefndarmenn hafa eðli máls samkvæmt ekki sama aðgang og innri nefndarmenn að starfsfólki Seðlabankans og þar með þekkingu og gögnum.“ — Það er lykilatriði hér, gögnum. — „Þá verður að hafa í huga að tilkoma ytri nefndarmanna er ekki einasta til þess að stuðla að gagnrýninni umfjöllun og óheftum skoðanaskiptum heldur einnig til að dreifa valdi og því er mikilvægt að ytri nefndarmenn hafi góðan stuðning og aðstöðu til að sinna sínu mikilsverða hlutverki.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt hlutverk. Þetta er til að koma í veg fyrir „groupthink“, eins og það er kallað í skýrslunni, að fólk einblíni of mikið og missi af stærri myndinni. Áfram segir:

„Út frá framansögðu er mikilvægt að tryggja ytri nefndarmönnum aðgang að öllu því efni sem þeir telja nauðsynlegt til að geta myndað sér sjálfstæða skoðun á því sem til umfjöllunar er í nefndunum hverju sinni. Það komu til að mynda fram í samtölum úttektarnefndar athugasemdir í tengslum við fjármálaeftirlitsnefnd og fjármálastöðugleikanefnd um að gögn bærust of seint til ytri nefndarmanna og þar með gæfist lítill tími fyrir þá til að setja sig inn í málin fyrir fundi nefndanna.“ — Mjög klassískt hér, í störfum þingsins fáum við jafnvel gögnin þegar við mætum á fund. Gestir koma fyrir fund og þeim eru rétt gögn: Gjörðu svo vel, hér eru gögnin. Hvernig á maður í alvörunni að geta skoðað og gagnrýnt og sett hlutina í samhengi á þeim tíma? Það umfjöllunarefni er hér undir.

Þetta er sérstaklega alvarlegt í okkar starfi af því að algengasta upplýsingaveitan okkar eru ráðuneytin og ráðuneytin eru stofnanirnar sem við þurfum að hafa eftirlit með. Fólk hlýtur að sjá möguleikann á ákveðnum feluleik þar. Það er ekkert flóknara en það, ég dreg ekki dul á það; það er einfaldlega til staðar freistnivandi til að segja ekki alla söguna ef eitthvað klúðrast. Þess vegna er svo mikilvægt að allt sé skjalfest og að það sé mjög skýrt hver aðgangur okkar að upplýsingum er. Til þess eru upplýsingalög og lög um uppljóstrara og ýmislegt svoleiðis, einmitt til þess að fólk geti látið vita eða komist í upplýsingar þegar verið er að svindla á því, þar sem annars væri jafnræði.

Áfram segir:

„Þá komu fram athugasemdir um að of mikið væri á dagskrá funda og í raun skapaðist ekki nægilegt svigrúm til að skiptast á skoðunum innan þess tíma sem fundunum væri úthlutað.“

Þetta er annað sem mikið er gert á fundum hér á þingi. Það er hrúgað á dagskrána og svo er bara gestur eftir gest sem kemur með gögn og aftur gögn og aldrei gefst tími í umræður eða ígrundun á því sem verið er að leggja til umræðunnar. Þetta er mjög klassískt.

Og áfram er haldið:

„Úttektarnefnd telur að úr þessu megi bæta en þess ber að geta að í samtölum nefndarinnar kom fram fullur vilji til þess af hálfu Seðlabankans.“

Þarna á hið sama við. Þegar maður bendir á þetta kemur alltaf fram vilji ráðuneytanna til að senda kynningarnar tveimur dögum fyrr eða eitthvað svoleiðis. En svo gerist það bara aldrei. Ég trúi því einfaldlega ekki þegar fólk segir slíkt af því að það gerist ekki. Það er búið að segja þetta margoft, en þetta er bara: Úlfur, úlfur. Svo kemur aldrei neitt þegar allt kemur til alls. Allir segja: Já, heyrðu frábært. En það er bara lygi. En svo kemur það í ljós að lokum að kallið úlfur, úlfur var satt en við missum krakkann af því að við erum hætt að trúa því sem hann segir.

Ég á í þessum vanda. Ég er hættur að trúa því að gögnin komi tímanlega til að ég geti skoðað þau. Ég er hættur að gera ráð fyrir því og það er frekar ömurlegt. Það breytir hugsunarganginum rosalega mikið, þ.e. hvernig ég nálgast vinnuna mína, og mér finnst það mjög slæmt. Ég vil ekki starfa svona. En mér er gert að vinna þannig út af þeim aðstæðum sem boðið er upp á.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Einnig verður að hafa í huga að ekki er nægjanlegt að afhenda gríðarmikið magn af óunnum gögnum. Staða ytri nefndarmanna felur í sér að samantektir og greiningar, sem jafnvel eru gerðar að frumkvæði þeirra sjálfra, geta skipt miklu máli.“

Þetta er önnur svona taktík: Hérna er gagnabunki, gjörið svo vel, reddið ykkur. Þegar nefndarmenn í fjármálastöðugleikanefnd eru að taka ákvarðanir þá taka þeir ákvarðanir út frá ákveðnum greiningum. Það á að vera augljóst út frá þeim greiningum hvaða ályktanir er hægt að draga út frá þeim, það á bara að vera gagnsætt. Þegar aðgengi er ekki að slíkum gögnum, í málinu hér áðan var t.d. alls ekkert augljóst að þessi skipan ráðuneyta leysti allan vanda, verður maður að spyrja: Hvernig var sú ákvörðun tekin? Hún var greinilega ekki tekin út frá gögnum heldur út frá geðþótta. Það er eina skýringin: Mér finnst. Stundum er það allt í lagi og getur verið pólitísk ákvörðun að gera bara eins og manni finnst. En það er samt mjög gagnrýnisverð ákvörðun þegar sá möguleiki er til staðar að púsla saman gögnum til að rökstyðja eina ákvörðun umfram aðra.

Áfram segir:

„Enn fremur komu fram í viðtölum úttektarnefndar þau sjónarmið að hugsanlega þyrfti sérstaklega að huga að stuðningi við ytri nefndarmenn þegar þeir hefja störf fyrir nefndirnar. Markmiðið með því væri að tryggja að þeir fengju í upphafi þann stuðning og þá fræðslu sem nauðsynleg er til að þeirra framlag hafi nægilegt vægi gagnvart þeim sem reyndari eru.“ — Þetta er líka mjög kunnuglegt úr störfum þingsins. — „Í viðtölum kom þó einnig fram að í tilviki fjármálastöðugleikanefndar, þar sem allir ytri nefndarmenn eru nýir, hafi verið unnið talsvert í því að aðstoða þá við upplýsinga- og þekkingaröflun. Meðal annars hafi þeim verið boðið á kynningarfundi um ýmis málefni, til viðbótar við hina reglubundnu fundi, og telur úttektarnefnd það vera til eftirbreytni.“ — Meira svoleiðis.

Og áfram:

„Að lokum er það að segja að ytri nefndarmenn eru skipaðir af ráðherra en vegna sjálfstæðis Seðlabankans, og einnig þagnarskyldu um meðal annars málefni bankans, er ekki ljóst hvort þeir geti snúið sér til ráðherra eða annars aðila hafi þeir einhverjar athugasemdir varðandi fyrirkomulag á vinnu nefndarinnar eða aðrar áhyggjur. Gera verður þó ráð fyrir því að ytri nefndarmenn geri athugasemdir á vettvangi nefndar, við formann hennar beint eða með athugasemdum og eftir atvikum bókunum á fundi, en sé sú leið ekki fær eða fullreynd er staðan sú sem áður er lýst.“

Þegar verið er að stunda gæðaeftirlit og upp koma atriði sem vekja þarf athygli á, brot einhvers staðar eða yfirsjón, hvern á þá að pota í og segja: Heyrðu, það verður að laga þetta? Hver ber ábyrgð á því? Það er verið að segja að það sé ekki augljóst. Það eru ákveðin hagsmunasjónarmið sem stangast á, þ.e. sömu aðilar og þurfti kannski að áminna voru líka að taka ákvarðanir. Það gerir það kannski að verkum að lítið er gert úr ábendingunum. Kannski er tekið tillit til þeirra og reynt að gera betur næst, en brotið eða yfirsjónin er gleymd. Það er ekkert gert í því, þar er engin ábyrgð. Það er vandinn að ekki er augljóst hver ber ábyrgð á því að taka við ábendingum og bregðast við þeim á einhvern hátt.

Þessi kafli í skýrslunni er rosalega lýsandi, finnst mér, fyrir allt sem ég hef verið að benda á, og við Píratar hér á þingi, og varðar nákvæmlega þann vanda sem við glímum við í samskiptum við framkvæmdarvaldið í fyrirkomulaginu sem viðgengst hér, þ.e. að meiri hluti tekur sér hundrað prósent dagskrárvald, hvernig meiri hluti fer með frumkvæðismál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, slaufar þeim með bókun og segir: Þetta er bara alger óþarfi o.s.frv. Þetta er nákvæmlega sú framkvæmd sem á ekki að viðgangast gagnvart gæðaeftirliti. Við erum að sjálfsögðu í þeim vanda að þarna er pólitík líka og þegar málefnaleg gagnrýni berst þá er bara sagt að hún sé pólitísk og lítið gert úr henni á þann hátt, að ósekju. En oft er líka pólitísk gagnrýni sett upp í búningi málefnalegrar gagnrýni og þá er réttmætt að slá það út sem málefnalega gagnrýni. Og hvernig á utanaðkomandi að þekkja um hvort er að ræða? Það er mjög erfitt, t.d. út af því að aðgang vantar að gögnum. Þriðji aðili sem horfir á þetta pólitíska rifrildi, hvort sem um er að ræða málefnalega gagnrýni eða ekki, getur einfaldlega farið og flett gögnum upp sjálfur og komist að því. Heyrðu, þetta er nú bull ágreiningur, eins og t.d. í orkupakkamálinu, algjört bull. Eða í Landsréttarmálinu þar sem gagnrýnin var augljóslega mjög málefnaleg, samt var þrætt fyrir það og allt útmálað sem pólitík og alls konar svoleiðis.

Það er vandinn sem við erum í í heild sinni, að stjórnkerfið, stjórnvöld, kann ekki á gæðaeftirlit. Það sést berlega í þessari skýrslu úttektaraðila, þeir vita um hvað málið snýst. Nefndarmenn sem sinna ytra eftirlitinu vita um hvað málið snýst. En þeir sem þurfa að gangast undir eftirlitið vilja það helst ekki af því að það gæti komið upp um fúsk, geðþóttaákvarðanir eða slíkt og það er eitthvað sem þeir vilja. Þetta er yfirleitt fólkið sem ræður og gerir þá það sem í þess valdi stendur til að koma í veg fyrir það.

Ég þakka fyrir þessa skýrslu, hún opinberar það sem mig grunaði að mörgu leyti. Og ég bendi á sambærilega hluti hér á þingi.