133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:30]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði að barátta gegn hryðjuverkum mætti ekki vera á kostnað mannréttinda. Þá held ég að ég hljóti að spyrja hvort ekki sé einhver þversögn í þessu. Hér mælir ráðherra flokks sem studdi innrásina í Írak á sínum tíma. Þar var brotið á þjóðarrétti og hefur margsinnis verið brotið gegn mannréttindum í kjölfar innrásarinnar.

Við sem erum andstæðingar þessarar innrásar og höfum alltaf verið vöruðum ítrekað við að Ísland legði með nokkrum hætti nafn sitt við þessa innrás. Að sjálfsögðu ætti hæstv. utanríkisráðherra að lýsa því yfir að íslenska ríkisstjórnin muni taka okkur Íslendinga af lista hinna viljugu þjóða og fordæma þessa innrás.

Hluti af grundvellinum, réttlætingu á þeim svívirðilega glæp sem þessi innrás er, var að það væru hryðjuverkamenn í Írak. Þetta var allt tóm lygi. Þetta reyndist allt tóm lygi. (Forseti hringir.) Það er hræsni í málflutningi framsóknarmanna í dag.