142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:04]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseta var ekki kunnugt um að fjárlaganefnd hefði tekið þessi mál til umfjöllunar. Það er hins vegar mjög skýrt kveðið á um það í lögum, annars vegar í lögum um rannsóknarnefndir og hins vegar í lögum um þingsköp Alþingis, með hvaða hætti eigi að meðhöndla skýrslur rannsóknarnefnda sem Alþingi hefur skipað. Þar er skýrt kveðið á um að þessum skýrslum skuli vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Enn fremur vekur forseti athygli á því að mjög skýrt er kveðið á um það í lögum um rannsóknarnefndir að strax og þær hafa lokið störfum sínum og skilað skýrslu af sér til Alþingis lýkur störfum þeirra.

Rannsóknarnefndin um Íbúðalánasjóð er í raun og veru ekki til staðar í dag eins og lög kveða á um. Þess vegna hefur það verið niðurstaða forseta að það væri óeðlilegt annað en að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði forræði þessa máls algjörlega og færi með það.

Þessi mál voru rædd í forsætisnefnd Alþingis núna í morgun. Það er alveg ljóst mál að við þurfum að fara yfir reynsluna af starfi þessara rannsóknarnefnda. Við erum að feta okkur inn á nýjar slóðir og lögin um rannsóknarnefndir og ákvæði í þingsköpum Alþingis sem forseti vísaði til hér áðan eru tiltölulega ný af nálinni. Vitaskuld þurfum við að endurskoða þetta. Forsætisnefnd hefur þegar sett af stað vinnu þar að lútandi sem forsætisnefnd hefur þá forræði yfir til þess að reyna að meta reynsluna af starfi þessara rannsóknarnefnda og eftir atvikum taka afstöðu til þess hvort slík vinna kalli jafnframt á lagabreytingu sem Alþingi tæki þá afstöðu til.