152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[14:20]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu sem er bæði mikilvæg og vönduð. Hún varpar ljósi á það sem betur hefði mátt fara við sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Reyndar hafði sumu verið flaggað áður en stofnanirnar voru sameinaðar en annað er fyrst að koma fram í þessari skýrslu. Með samþykkt laga um Seðlabanka Íslands á vorþingi 2019 fór fram heildarendurskoðun á lagaumhverfi Seðlabankans í fyrsta sinn í tvo áratugi. Að vissu leyti var kominn tími til. Eitt af meginmarkmiðum laganna var áðurgreind sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Við erum með lítið samfélag og með lítið fjármálakerfi í alþjóðlegu samhengi og því er mikilvægt að stofnanir sem fara með eftirlit, á borð við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið, séu öflugar. Sameining getur vissulega leitt til betri heildarsýnar yfir fjármálakerfi landsins, aukinnar skilvirkni og greiðari upplýsingaskipta. Á sama tíma er hin sameinaða stofnun gríðarlega valdamikil. Hún ber mikla ábyrgð á skipan efnahagsmála til skemmri og lengri tíma. Því skiptir máli að vel sé að sameiningunni staðið, ella er fyrirsjáanlegt að breytingar veiki fjármálaeftirlit og dragi úr trausti í garð Seðlabankans.

Breytingarnar voru gagnrýndar af mörgum. Fjármálaeftirlitið hafði áður tvíþætt hlutverk, annars vegar eftirlit með þeim sem gæta og ávaxta fjármuni og hins vegar eftirlit með eðlilegri starfsemi á verðbréfamarkaði. Fjármálaeftirlitið gegndi mikilvægu hlutverki í viðbrögðum okkar við hruninu árið 2008 og uppbyggingunni sem fylgdi í kjölfarið. Að hluta til hefur stofnunin einnig eftirlit með áhrifum ákvarðana Seðlabankans. Því er nauðsynlegt að tryggt sé að fjármálaeftirlitsnefnd í hinni nýju sameinuðu stofnun sé sjálfstæð og óháð ákvörðunum Seðlabankans að því leyti til sem hlutverkin kunna að skarast.

Frú forseti. Með leiðinni sem varð fyrir valinu var horfið frá þeim hugmyndum sem settar voru fram í skýrslu nefndar um ramma peningastefnu, þ.e. að sameina þjóðhagsvarúð og eindarvarúð í Seðlabankanum en að Fjármálaeftirlitið sinnti áfram neytendavernd og eftirliti með viðskiptaháttum í sjálfstæðri stofnun. Sú ákvörðun var aldrei rökstudd sérstaklega en ýmsir sérfræðingar höfðu varað við mögulegum afleiðingum þess að skilin yrðu gerð óskýrari milli þeirra sem fara með eftirlit og þeirra sem hafa undir höndum tæki til að tryggja fjármálastöðugleika. Meginhlutverk Seðlabankans er að tryggja stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og traust og öruggt fjármálakerfi. Forsenda þess er að sjálfstæði bankans sé tryggt gagnvart ríkisstjórn hverju sinni. Þannig geti einstakar ríkisstjórnir ekki haft áhrif á starfsemi og ákvarðanir bankans, svo sem vaxtaákvarðanir. Seðlabankinn verður að geta unnið að lögbundnum markmiðum sínum óháð stöðu stjórnmálanna hverju sinni.

Framkvæmd peningastefnu og önnur verkefni Seðlabanka Íslands verða aldrei sterkari en sem nemur trúverðugleika hans. Þess vegna er mikið í húfi. Eftirlit Seðlabankans með viðskiptaháttum kann að koma bankanum í opinberar deilur við fyrirtæki sem væri til þess fallið að skaða traust á Seðlabankanum og seðlabankastjóra. Áður en lögin voru samþykkt lagðist Kauphöll Íslands t.d. eindregið gegn því að eftirlit með hegðun á verðbréfamarkaði yrði fært undir Seðlabankann. Seðlabankinn er þegar þátttakandi á verðbréfamarkaði þar sem deild um lánamál ríkisins hjá Seðlabankanum á til að mynda viðskipti á markaði með ríkisskuldabréf. Af þeirri ástæðu er eftirlit Seðlabankans með verðbréfamarkaðnum óheppilegt. Til viðbótar hefur Seðlabankinn áhrif á verðbréfamarkaðinn með aðgerðum sínum á öðrum sviðum, svo sem vaxtaákvörðunum og inngripum á gjaldeyrismarkaði. Fari eitthvað úrskeiðis, jafnvel fyrir mannleg mistök, er hætt við að Seðlabankinn yrði ekki álitinn óháður eftirlitsaðili sem rannsakað gæti slík mál án þess að hagsmunaárekstur teldist vera til staðar. Ekki er fullvíst að fyrirkomulag um að fjármálaeftirlitsnefnd taki endanlegar ákvarðanir á sviði viðskiptahátta sé fullnægjandi.

Í skýrslu úttektarnefndarinnar, sem við ræðum hér, er tekið undir mikið af þessari gagnrýni. Þar kemur m.a. fram að það sjáist að ekki hafi unnist tími til að huga að öllum atriðum í löggjöf um svo viðamikil mál. Þingmenn Viðreisnar gagnrýndu hversu skammur tími var gefinn í meðförum þingsins, bæði í ræðum og í nefndaráliti. Meðal þess sem þarf að skoða eru úrræði til að tryggja árangursríkt starf, réttaröryggi og temprun þess gífurlega valds sem Seðlabankanum var fært með sameiningunni. Til dæmis er gerð athugasemd við óskýr skil milli stefnumörkunar og framkvæmdar í störfum peningastefnunefndar og bent á að verkaskipting milli hinna nýju nefnda Seðlabankans sé að sama skapi óskýr. Úr þessu þarf að bæta hið allra fyrsta áður en á það kann að reyna með raunverulegum hætti. Þú byrgir ekki brunninn eftir að barnið er dottið í hann, eins og segir einhvers staðar, og hagsmunirnir sem hér eru undir eru gríðarlega stórir.

Frú forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér kom með góðar ábendingar um það sem efnahags- og viðskiptanefnd þyrfti að taka til meðferðar og athugunar í framhaldinu, sem mun auðvitað skipta máli og vera mjög mikilvægt í framhaldinu. Það er bráðnauðsynlegt að eftirlitsnefndin taki allar þessar ábendingar til skoðunar og reyni að nesta sig í þeim breytingum sem þarf að gera eins og bent er á í skýrslunni.

Frú forseti. Seðlabankanum hafa verið færð í fangið mjög öflug stjórntæki til að viðhalda stöðugleika þess gjaldmiðils sem við búum við og eitt af þessu er svokallað þjóðhagsvarúðartæki sem gerir það að verkum að Seðlabankinn getur á hverjum tíma gripið inn í til að verja það sem nefnt er þjóðarhagur. Það beinist eingöngu að því að verja þann óstöðuga gjaldmiðil sem við búum við. Ég fæ ekki séð að þetta geti undir nokkrum kringumstæðum samræmst þeim skilmálum sem við höfum undirgengist í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það hefur t.d. komið oftar en einu sinni í ljós að lífeyrissjóðir á Íslandi hafa talið betri möguleika á að ávaxta sjóði sína erlendis en hér á landi en vegna þess að það getur haft gríðarleg áhrif á gengi krónunnar hefur Seðlabankinn undir höndum þetta svokallaða þjóðhagsvarúðartæki og getur á hverjum tíma gripið inn í og komið í veg fyrir að lífeyrissjóðir geti ávaxtað sitt pund til hagsbóta fyrir skjólstæðinga sína. Þarna er flækjustig sem þarf að skoða, sem mér finnst mikilvægt að við hendum reiður á og veltum fyrir okkur. Kannski erum við þarna farin að ganga of langt til að viðhalda gjaldmiðli sem ég hefði fyrir löngu viljað vera laus við.