150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[15:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alltaf ánægður þegar reynt er að leita aukins hagræðis í ríkisrekstri, m.a. með sameiningu stofnana sem fjölmargar úttektir hafa sýnt að eru einfaldlega allt of margar hjá okkur. Ég sakna þess hins vegar í fylgiskjölum með frumvarpinu að það er lítið sem ekkert mat lagt á hvert hagræðið gæti orðið af sameiningu þessara stofnana og eins ber þetta mál mjög bratt að. Mér sýnist á öllu að sameinaðar stofnanir eigi að hefja starfsemi í nýrri stofnun um næstu áramót, það eigi að leggja niður störf allra þeirra sem starfa hjá stofnununum í dag og væntanlega að auglýsa eftir og ráða nýjan forstjóra stofnunarinnar. Ég velti fyrir mér: Er þetta ekki allt of hratt farið? Verður t.d. kominn nýr forstjóri að stofnuninni þegar hún á að hefja starfsemi sína? Ég gagnrýni mjög harðlega hversu skammur fyrirvari eða aðdragandi er að þessu og ég óttast að einmitt svona geti sameiningar farið algjörlega úr böndunum. Þess vegna væri kannski eðlilegasta spurningin: Væri ekki rétt að fresta þessari sameiningu (Forseti hringir.) þar til búið væri m.a. að skipa nýjan forstjóra?