150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hæstv. ráðherra væri svona viðkvæmur, væri svona mikið stofublóm (Gripið fram í.) að hann þyldi ekki að menn bentu honum á augljósa ókosti sem eru í frumvarpi hans. Það er engin gremja í því. Ekki veldur sá er varar, segir í málshætti. En að því sögðu fagna ég því auðvitað ef hæstv. ráðherra vill hlusta á það sem ég færði fram áðan og það skal svo sannarlega ekki standa á þeim sem hér er í ræðustól að veita ráðherra og hans fólki upplýsingar sem ég kann að búa yfir, ekki skal standa á því. Aðalatriðið er náttúrlega að þessu verði kippt í liðinn, kippt í lag.

Ég bendi aftur á að ráðherra myndi sjálfsagt græða mest á því að tala við þá sem vinna í stéttinni, þ.e. í slökkviliðsmannastéttinni og þá sem eru viðskiptavinir eða haghafar þess að slökkviliðið virki, flugmenn og aðrir slíkir. Ég endurtek því að ráðherra færi vel út úr því, tel ég, að hafa samband við þær tvær stéttir og ég skora á hann að gera það. En ég fagna því hins vegar að hann skuli alla vega hafa gefið það upp að hann sé til í að bæta þetta mál. Ég vona að hann standi við það.