149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og málefni aldraðra.

40. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og lögum um málefni aldraðra; það varðar búseturétt aldraðra og öryggisíbúðir. Flutningsmenn, ásamt þeim sem hér stendur, eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Willum Þór Þórsson. Frumvörp sama efnis voru flutt á 143., 144. og 145. löggjafarþingi en hlutu ekki afgreiðslu. Út af fyrir sig má segja að frumvarpið sé einfalt, það er tvær greinar.

1. gr. hljóðar svo:

„Við 5. gr. laganna“ — laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, með síðari breytingum — „bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisendurskoðun skal leggja mat á fjárhagsstöðu, rekstrarhorfur og hreina eign sjóðs eða stofnunar áður en slík umsögn er veitt og miða umsögn við niðurstöður.“

Í II. kafla er breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. 2. gr. frumvarpsins hljóðar svo, og beinist að þeim lögum, með leyfi forseta:

„Við 13. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Við sölu íbúðarréttar heimilismanna á dvalarheimilum og annarra sambærilegra réttinda er skylt að gera kaupanda grein fyrir eignum og öllum veðsetningum sem þegar hvíla á fasteignum sjóðs eða stofnunar. Skal kaupandi undirrita staðfestingu þess efnis að honum hafi verið kynnt þessi gögn. Sjóði eða stofnun er skylt að annast um þinglýsingu vegna íbúðarréttar heimilismanna og annarra sambærilegra réttinda. Íbúðarréttur heimilismanna á dvalarheimilum og önnur sambærileg réttindi skulu hvíla næst á eftir fyrri veðréttum með uppfærslurétti á viðkomandi eign.“

Frú forseti. Öldruðum Íslendingum fjölgar mjög. Samkvæmt spám Hagstofunnar verða Íslendingar 70 ára og eldri orðnir rúm 62.000 eftir tvo áratugi. Töluverður fjöldi aldraðra býr í svokölluðum öryggisíbúðum sem hafa verið reistar af fasteignafélögum sem oftast eru í eigu sjálfseignarstofnana. Það er rétt að taka fram að sumar sjálfseignarstofnanir hafa stofnað sérstök hlutafélög utan um einstök búsetuúrræði, af ástæðum sem mér eru ekki kunnar, en hafa með því móti á tíðum gengið ansi hart fram gagnvart þeim íbúum sem þar búa. Má nefna nýlegt dæmi úr íbúðum Sjómannadagsráðs í Boðaþingi í Kópavogi, þar sem aldraðir íbúar máttu sæta því að taka annaðhvort þátt í ákveðnum kostnaði á sameign eða verða gerðir burtrækir úr íbúðum sínum að öðrum kosti. Það er því full ástæða til þess, herra forseti, að þessi mál séu tekin upp hér á Alþingi með ákveðnum hætti.

Það eru önnur kveikja að þessu máli. Það er orðið nokkuð síðan að íbúðarúrræði aldraðra fór í þrot. Þar var um að ræða að íbúðarhúsnæði aldraðra hafði verið veðsett án þess að fólk hefði gert sér grein fyrir því, enda háaldrað fólk í mörgum tilfellum sem þar átti í hlut. Það voru ansi margir einstaklingar þar sem nánast töpuðu ævisparnaði sínum í einu vetfangi. Flutningsmenn frumvarpsins eru og voru þau fyrri sinn sem það var flutt sammála um að annað eins mætti ekki endurtaka sig.

Það hefur komið fram hér áður og í fleiri málum, t.d. í dag, að Miðflokkurinn hefur gert sig gildandi í því að koma fram með frumvörp til að leiðrétta kjör aldraðra og gera veg aldraðra sem mestan og eins mikinn og kostur er. Þetta frumvarp er einn angi af því. Eins og fram hefur komið hér áður í umræðum, og í ræðum sem fluttar hafa verið af fulltrúum Miðflokksins hér á Alþingi, eru aldraðir í mjög mismunandi stöðu innbyrðis. Aldraðir eru ekki einn hópur, ekki eitt mengi. Aldraðir hafa mjög mismunandi stöðu, þurfa mismunandi aðgerðir, ef við getum orðað það þannig, mismunandi aðstoð jafnvel. Við sem setjum lög á Alþingi þurfum að gera okkur grein fyrir þessu og við þurfum, og að því hefur Miðflokkurinn kappkostað, að koma fram með úrræði og tillögur sem koma öldruðum til góða hvar sem þeir eru á þessu rófi eða þessu „spektrúmi“, sem við erum að tala um.

Illu heilli hefur þetta frumvarp ekki hlotið afgreiðslu þrátt fyrir að hafa verið lagt fram þrisvar sinnum áður. Það er þó mjög mikilvægt ekki síst vegna þess að þeim öryggisíbúðum sem tilgreindar eru í frumvarpinu fer mjög fjölgandi í takt við það að öldruðum á Íslandi fer fjölgandi. Það eru því fleiri og fleiri aldraðir sem treysta á þetta úrræði. Það er okkar að sjá svo til að það traust sé á rökum reist, að ekki sé hægt að kippa fótunum undan fólki á efri árum, fólkinu sem skóp þetta þjóðfélag, fólkinu sem gerði Ísland að því sem það er nú. Ég hef stundum sagt: Þessi hópur er þolinmóðasti hópur á Íslandi. Hann tekur hverju sem að höndum ber með þrautseigju og þolinmæði og möglunarlaust. Þetta er ekki fólk sem gerir kröfur. Þetta er ekki fólk sem stendur jafnvel upp fyrir sig sjálft þegar á það hallar. Þess vegna þurfum við að koma til liðs við þennan hóp og tryggja með öllum ráðum réttindi hans. Út á það gengur þetta frumvarp í örstuttu máli.

Herra forseti. Ég vil trúa því að í þetta sinn verði frumvarpið tekið til gaumgæfilegrar meðferðar í nefnd og hljóti hér á Alþingi alvöruafgreiðslu, eins og maður segir, og að við girðum fyrir að atburðir eins og við höfum orðið vör við að hafi gerst áður, þar sem ævisparnaður fólks hefur verið í hættu, gerist aftur. Þetta ágæta fólk sem eyðir ævikvöldi sínu í íbúðum eins og þessum, eða úrræðum eins og þessu, á það skilið af okkur sem erum yngri að við tryggjum hagsmuni þess eins og hægt er. Hvar sem málið lendir — ég geri ráð fyrir að það fari til hv. efnahags- og viðskiptanefnd frekar en til velferðarnefndar — þá heiti ég á þá hv. nefnd þingsins sem fær málið til meðferðar að tekið verði á því af festu og það hljóti vandaða meðferð og komi síðan aftur til 2. umr. þannig að hægt verði að afgreiða það. Sú kynslóð sem þetta mál varðar á það skilið af okkur að við gerum akkúrat það.