153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

álag á innviði vegna hælisleitenda.

[11:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, nú erum við kannski farin að nálgast hinn málefnalega kjarna. Það er nefnilega þannig að þegar við erum að taka á móti kvótaflóttamönnum þá er það fólk sem er í mjög erfiðri stöðu og að mati Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannahjálpar þeirra í þeirri verstu. Þeir þurfa umframþjónustu og við erum að reyna að samræma þá þjónustu við þá sem koma hér í gegnum verndarkerfið, neyðarkerfið. Það er allt önnur þjónusta heldur en þeir sem koma hingað til að vinna. Það er nákvæmlega þess vegna sem það þrýstir meira á suma hluta kerfisins og það er þess vegna sem við ráðum kannski ekki við óendanlegan fjölda fólks. En ég er algjörlega sammála þingmanninum um að þegar fólk er komið hingað inn og komið í störf þá eru allir að leggja jafn mikið til samfélagsins með vinnu sinni. Það er nú eitt af því sem er það góða við Ísland, að flestir sem hingað hafa komið hafa farið í vinnu umfram t.d. mörg önnur Norðurlönd. (Forseti hringir.)

Ég hef sagt hérna áður og ætla að segja það í lokin: Við getum alveg horft á Norðurlöndin sem fyrirmynd (Forseti hringir.) í þessu máli eins og mörgum öðrum. Við erum einhvern veginn akkúrat ekki þar í augnablikinu en þessi umræða fannst mér ágæt(Forseti hringir.) við hv. þingmann og málefnaleg.