153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lög gera ráð fyrir því að við tökum ákvarðanir um breytingar á bótum almannatrygginga einu sinni á ári við fjárlög. Ef forsendur bresta þá gera lög ekki ráð fyrir því að það beri að grípa inn í. Engu að síður gerði ríkisstjórnin það. Hún gerði það með öðrum hætti í fyrra, eiginlega fordæmalausum, með því að horfa til þess að við næstu ákvörðun um breytingar á bótum almannatrygginga yrði staðan vegin upp eftir árið 2021. Það þótti mjög myndarlegt. Við göngum enn lengra núna og grípum inn í á miðju ári, hækkum og bætum síðan við í fjárlögum næsta árs til að verja þennan hóp. Við skulum bara spyrja að leikslokum, kannski þegar við klárum fjárlög vegna næsta árs, hvernig ríkisstjórninni hefur gengið að skjóta skjólshúsi yfir þann hóp sem er veikastur fyrir áhrifum verðbólgunnar. Þar finnst mér að ríkisstjórnin hafi nákvæmlega ekkert að óttast í umræðunni heldur hafi mjög skýra mynd til að draga upp af því að þetta mál hefur verið í forgangi.