153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tölum hér um fjáraukalögin. Ég hef einhvern veginn vaðið í þeirri villu að þau væru til þess að mæta einhverju ófyrirséðu og óvæntu sem upp kynni að koma, einhverju sem ekki væri hægt að setja inn í fjárlögin sjálf. Þann 6. apríl sl. felldi Hæstiréttur dóm þar sem hann viðurkenndi frá a til ö að íslenska ríkið hefði brotið á réttindum einstaklinga sem höfðu búið hluta starfsævi sinnar erlendis, öryrkja og ellilífeyrisþega — svokölluð búsetuskerðing. Nú er hins vegar gert ráð fyrir í þessum fjárauka að 2,9 milljarðar fari úr fjáraukanum til að greiða þessa skuld ríkisins við þessa einstaklinga, vegna þess að 4,1 milljarður kr. varð eftir sem var búið að marka í nýgengi örorku sem ekki raungerðist enda búið að setja slagbrand fyrir Tryggingastofnun þannig að þeir sem eru virkilega fatlaðir fá ekki einu sinni að komast þar inn.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta ratar inn í fjárauka? Hvernig í ósköpunum stendur á því að öryrkjum og ellilífeyrisþegum, sem lepja dauðann, úr skel er ekki mætt betur en raun ber vitni?