153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:37]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat ekki stillt mig um að koma hér upp og nefna þetta dómsmál og allan þennan rekstur innan dómskerfisins af því að hv. þingmaður fjallaði um að aukin framlög væru í fjárauka vegna niðurstöðu þessa máls. Kjarnaatriðið er auðvitað að niðurstaðan lá fyrir í Landsrétti. Niðurstaðan var afdráttarlaus, skýr og vel rökstudd. Auðvitað er ekkert sem bannar ríkisstjórninni að fara með þetta mál alla leið upp í Hæstarétt en þá þarf ríkisstjórnin líka að gangast við pólitískri afstöðu sinni til þessara réttinda. Að menn hafi það í sér að fara með þessa hagsmuni, þennan viðkvæma hóp og berjast af þessum þunga og krafti þegar við blasir að rökin eru veik, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það var áhugavert að sjá það og skynja, og fá það skriflega staðfest, að félagsmálaráðherrarnir úr flokkum Framsóknar og Vinstri grænna voru einhuga um að svona skyldi þetta vera og svona skyldi framgangan vera gagnvart þessum hóp.